Fara í efni

Sirkusnámskeið LLA með Húlladúllunni

Húlladúllan og Leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar bjóða upp á sérstakt sirkusnámskeið fyrir krakka í 6.-10. bekk dagana 10. til 14. júní. Á námskeiðinu læra þátttakendur grunnatriði ýmissa sirkuslista og þjálfa sviðsframkomu og atriðagerð, sér í lagi hvað varðar trúðinn.

Nemendur munu húlla húllahringjum, læra að djöggla slæðum, boltum, hringjum og jafnvel keilum, dansa með fimleikaborða, leika okkur að blómaprikum og kínverskum jójóum, læra sirkusfimleika og akró, vagga á veltibrettum, halda jafnvægi á töfrafjöðrum og leika kúnstir með kínverska snúningsdiska og levi-prik. Einnig læra krakkarnir að nota bæði venjuleg poi og sérstök ljósapoi.

Áhersla er lögð á sköpunargleði, samvinnu og umhyggju fyrir félögum okkar og það að þátttakendur uppgötvi og njóti eigin styrkleika. Sirkuslistirnar styrkja líkamlega getu, jafnvægi og liðleika en þroska líka einbeitingu, styrkja sjálfsmynd og kveikja í ímyndunarafli og sköpunargleði.

Húlladúllan er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona, búsett á Ólafsfirði. Hún er lærður sirkuskennari og hefur kennt og sýnt með Sirkus Íslands og breska sirkusnum Let’s Circus auk þess að koma fram á ýmsum viðburðum á alþjóðlegri grundu. Hún hefur einnig verið áberandi í kabarettsenunni og er einn stofnanda Reykjavíkur Kabaretts auk þess að hafa komið reglulega fram í dragsenunni, sér í lagi með Drag-Súgi.

Skráning fer fram hér á Sportabler.