Fara í efni
VERÐANDI
Dags Tími
19 .apr '24 20:00

Rósa María ásamt hljómsveit býður tónleikagestum að koma á stefnumót við ástina, taka frá stund til að rækta kærleikann og huga að mýkri hliðum tilverunnar.

Fluttar verða rómantískar dægurlagaperlur úr ýmsum áttum, létt og lifandi, silkimjúk og seiðandi tónlist, svo ást, hlýja og vellíðan fylli rýmið og streymi um æðarnar og fylgi tónleikagestum út í vorið.

Frumfluttir verða tveir íslenskir textar við erlend lög.

Hljómsveitina skipar einvalalið hljóðfæraleikara:
Risto Laur, píanó
Pétur Ingólfsson, kontrabassi
Michael Weaver flauta, klarinett og saxófónn
Haukur Pálmason, trommur og slagverk
Kristján Edelstein, gítar

Einnig mega tónleikagestir eiga von á nokkrum spennandi leynigestum.

Rósa María lagði stund á nám í klassískum söng við Tónlistarskólann á Akureyri og lauk þaðan framhaldsprófi vorið 2019. Rósa María tók þátt í uppsetningum á vegum Tónlistarskólans, tónleikum, óperublótum, uppsetningu á óperunni Mærþöll, Þorgerðartónleikum og fleiru. Hún hefur jafnframt komið fram á eigin vegum við ýmis tilefni og haldið tónleika með ólíkum þemum, ýmist klassískum eða dægurlagatengdum. Rósa María hefur starfað í kirkjukórum í tuttugu ár og komið fram á tónleikum með kórum og sem einsöngvari. Rósa María hefur verið meðlimur í Kvæðamannafélaginu Gefjuni nánast frá stofnun þess og starfaði þar í stjórn og hefur troðið upp við ótal tilefni og flutt fornar íslenskar stemmur og kvæðalög og þjóðlög. Rósa María stofnaði Sönghópinn Jódísi fyrir nokkrum árum. Sá hópur samanstendur af fjórum söngkonum og vinkonum sem syngja raddaðar útsetningar og hafa þær haldið tónleika meðal annars í Hofi og á Græna hattinum og auk þess komið fram við ýmis tilefni.

Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningafélags Akureyrar og Menningar- og viðurkenningasjóð KEA