Fara í efni

Alþjóðleg leiklistarhátíð 10.-15. ágúst

Hátíðin beinir sjónum að manneskjunni og samskiptum hennar við náttúruna, bæði hvað varðar óblíð náttúruöflin og mannlega náttúru; eilífa baráttu við hatur, ástríður, fordóma og svo mætti lengi telja. Alls verða sýndar 12 leiksýningar á hátíðinni, þar af þrjár íslenskar. Það eru Umbúðalaust frá Leikfélagi Kópavogs í leikstjórn Vigdísar Jakobsdóttur, Birtingur frá Leikfélagi Selfoss og Vínland frá Freyvangsleikhúsinu, báðar í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar.

Auk leiksýninga verður boðið upp á þrjár leiksmiðjur á meðan á hátíðinni stendur, leiðbeinendur á þeim eru Ágústa Skúladóttir, Bernd Ogrodnik og Rúnar Guðbrandsson. Jafnframt mun hátíðarklúbbur verða starfræktur þar sem þátttakendur á hátíðinni munu skemmta sér og öðrum. Boðið verður uppá gagnrýni á sýningar hátíðarinnar og verða gagnrýnendur Dr. Danute Vaigauskaite frá Háskólanum í Klaipeda, Litháen og Þorgeir Tryggvason, leiklistargagnrýnandi og formaður Bandalags íslenskra leikfélaga.

Leiklistarhátíðin á Akureyri er 6. NEATA-hátíðin sem haldin er og er nú í fyrsta sinn haldin á Íslandi. Hún er jafnframt stærsta leiklistarhátíð sem Bandalag íslenskra leikfélaga hefur staðið fyrir. Verndari hátíðarinnar er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.

Bandalag íslenskra leikfélaga skipuleggur leiklistarhátíðina í samvinnu við Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðið (NEATA), Norræna menningarsjóðinn, Menntamálaráðuneytið, Akureyrarbæ og Menningarhúsið Hof.

Frítt verður á allar sýningar og hægt er að nálgast miða eftir kl.13:00 í miðasölu Hofs á sýningardögunum.

Til baka