Fara í efni

Samkomuhúsið

Samkomuhúsið Hafnarstræti er með glæsilegustu húsum landsins frá byrjun 20. aldar. Það nýtur sín ákaflega vel í bæjarmyndinni, á Barðsnefi, og er eitt helsta kennileiti Akureyrar, glæsilegt og háreist. Í húsinu hefur átt sér stað merkur kafli í leiklistarsögu Íslendinga en þar hefur verið leikið samfleytt í yfir heila öld.

Húsið er í eigu Akureyrarbæjar. Leikfélag Akureyrar hefur alla tíð rekið starfsemi sína þar og eru afnot af húsinu hluti af styrk Akureyrarbæjar til leikfélagsins. Í húsinu er aðalsvið Leikfélags Akureyrar og Borgarasalurinn.

Það voru stúkurnar Trúföst og Ísafold sem létu byggja húsið árið 1906. Framkvæmdir hófust um vorið og Guðlaugur Guðmundsson bæjarfógeti vígði húsið 23. desember sama ár. Byggingarferlið á þessu stóra húsi tók ótrúlega skamman tíma, og allt gert með handverkfærum. Með húsgögnum kostaði húsið fullsmíðað 28.500 krónur. Yfirsmiðir voru þeir Guðmundur Björnsson og Guðmundur Ólafsson frá Steinhóli í Skagafjarðarsýslu.
Bærinn lagði sitt af mörkum með því að ábyrgjast lán og leigja neðstu hæð hússins fyrir lestrarsal, bókasafn og bæjarstjórnarfundi. Bærinn keypti síðar húsið af templurum, eða árið 1917.

Fyrsta leiksýningin á fjölum hússins var frumsýnd 20. janúar 1907, Ævintýri á gönguför, og leikstýrði sjálfur Guðlaugur bæjarfógeti sýningunni. Aðgangseyrir rann til nýja leikhússins. Um þessar mundir var ekkert eiginlegt leikfélag starfandi á Akureyri, en einstaklingar og hópar sýndu sýningar og skemmtu áhorfendum, og oftar en ekki rann ágóði þessara uppákoma til hússins.

Leikfélag Akureyrar (hið eldra) var stofnað ári síðar, eða 1908, og síðan þá hefur verið leikið nær óslitið í húsinu. Megnið af húsinu var undir stóran sal, með leiksviði og hliðarherbergjum. Þessi salur var einn aðal skemmtistaður bæjarbúa. Líklegt er að í byrjun aldarinnar hafi húsið verið stærsta leikhús landsins. Líkt og nú er, voru svalir á þrjá vegu, á hliðarveggjum og í norðurenda en þá voru áhorfendabekkir einnig á svölum á vestur og austurvegg, hvar nú er einungis gönguleið. Súlur studdu svalirnar og milli þeirra voru bogadregnar brúnir, og einnig yfir sviðinu, allt var skrautmálað.

Auk leiksýninga og skemmtana var salurinn notaður til fundarhalda, þar voru haldnir þingfundir auk þess sem alþingis- og bæjarstjórnarkosningar fóru þar fram. Á jarðhæðinni var Amtbókasafn Akureyrar til húsa, þar var póstafgreiðsla og um tíma var öll hæðin lögð undir bæjarskrifstofur. Bæjarstjórnarfundir voru haldnir á efri hæð í norðurenda hússins, nú Borgarasal. Þar héldu einnig templarar fundi sína.

Anddyri hússins, sá hluti þar sem áhorfendur ganga ínn í Samkomuhúsið og upp bogadreginn stiga, var byggt árið 1920. Auk anddyris voru í viðbyggingunni tvær stofur, sennilega þar sem nú er fatahengi, og snyrtingar. Á síðari árum var einnig reist viðbygging vestan við húsið sem ætluð var leikurum. Sá hluti byggingarinnar hvíldi á nokkrum stöplum og var að hruni kominn þegar hann var loks rifin árið 2003 og ráðist var í viðbygginguna sem nú gengur eftir allri vesturhlið hússins. Allt fram að þeim tíma, máttu leikarar og þeir sem að sýningum komu hlaupa út undir bert loft og eftir nokkurra metra langri trébrú til að komast inn á sviðið úr kaffistofu.

Aðalsalur hússins hélst óbreyttur til ársins 1950, en þá var hann færður í það horf sem þótti betur hæfa leikhúsi. Svalirnar voru fjarlægðar af austur og vestur vegg, einnig boginn yfir leiksviðinu. Þá var gert hallandi gólf og komið fyrir föstum sætum. Árið 1996 fékk salurinn svo andlitslyfingu, en þá var skipt um áhorfendabekki og salurinn fékk það útlit sem hann hefur nú.  Gömlu bekkirnir með dökkrauða snjáða leðrinu voru seldir, þrjú og þrjú sæti saman og seldist hvert einasta sæti á augabragði, hraðar en á nokkra leiksýningu og fengu færri en vildu.

Í byrjun árs 2004 réðst Akureyrarbær enn í glæsilegar endurbætur á húsinu og byggð var viðbygging á tveimur hæðum eftir endilangri vesturhlið hússins eins og áður sagði. Virkni ehf. sá um þær framkvæmdir. Aðstaða fyrir leikara varð þá mun betri en áður var. Þá voru gerðar endurbætur á anddyri hússins, miðhæðinni, þar sem áður var lítill veitingasalur og á Borgarasal. Úr Borgarasal er útgengt á svalir sem eru á þaki viðbyggingarinnar. Einnig var sett lyfta í húsið og aðgengi fatlaðra bætt. Þá var allt nánasta umhverfi hússins fært í fallegra horf, bæði brekkan ofan hússins, gatan og bílastæði.

Húsið er enn í eigu Akureyrarbæjar og Leikfélag Akureyrar mun áfram hafa þar aðsetur, enda þessi tvö fyrirbæri, Samkomuhúsið og Leikfélag Akureyrar nánast staðgenglar fyrir hvort annað, svo samofin er saga þeirra.

Húsið er friðað samkvæmt þjóðminjalögum, í B-flokki (ytra byrði eingöngu).

Saga leiklistar á Akureyri 1860-1992. Haraldur Sigurðsson skráði. Útg. Leikfélag Akureyrar.
Akureyri. Höfðuborg hins bjarta norðurs. Höf: Steindór Steindórsson, útg. Örn og Örlygur.