Fara í efni

Aðgengi og staðsetning

Menningarhúsið Hof er staðsett í miðbæ Akureyrar og er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Aðalinngangur Hofs snýr í norðvestur. Útsýni er úr húsinu í allar áttir. Einnig er hægt að ganga út og inn um húsið að suðaustanverðu. Við aðalinnganginn er rennihurð og sunnanmegin er vængjahurð.

Aðkoman sunnanmegin hússins er mjög heillandi fyrir siglingafólk á minni bátum sem leggja við bryggju tengda húsinu, ferðamenn og aðra gesti. Einnig er hægt að ganga inn í húsið um forsalinn en opnun á þeim inngangi er háð þeim viðburðum sem þar fara fram.

Bílastæði

Bílastæði eru norðan og austan við bygginguna og hitalögn er í stéttum á helstu gönguleiðum. Almenn lýsing er að bílastæðum og göngulýsing við stíga.

Aðgengi fyrir fatlaða

Aðgengi fyrir fatlaða í Menningarhúsinu Hofi er til fyrirmyndar. Í aðalsal Hofs eru ákveðin sæti tileinkuð hreyfihömluðum. Við minnum gesti á að taka fram við miðasölu ef þörf er á þeim sætum, þar sem fjöldi þeirra er takmarkaður.

Sérstök bílastæði eru fyrir hreyfihamlaða við aðalinngang byggingarinnar. Inni í byggingunni er greið leið fyrir alla með lyftu sem tengir allar hæðir. Allar hurðir miðast við umferð hreyfihamlaðra og sérstök salerni fyrir hreyfihamlaða eru í húsinu.

Hljóðmöskvar fyrir heyrnardaufa

Fólk sem notar heyrnartæki hefur verulegt gagn af tónmöskvakerfi eða sambærilegu kerfi sem er notað til að draga úr aukahljóðum og bæta hlustun. Í Hofi er hægt að fá afnot af slíkum búnaði en hann virkar þannig að það eru sendar í loftinu sem gefa frá sér innrautt merki. Merkið sendist í móttakara, heyrnartól eða hljóðslaufu sem virkar með heyrnartækjum. Gestir sem óska eftir að fá afnot af búnaðinum eru beðnir um að gefa sig fram í miðasölu fyrir viðburð.