Saga hljómsveitarinnar
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands var stofnuð haustið 1993 og fyrstu tónleikarnir voru haldnir 24. október það ár undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Fyrirrennari SN, Kammerhljómsveit Akureyrar, var stofnuð árið 1987 af hljóðfæraleikurum sem flestir voru starfandi kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri. Þann 16. október 1988 var stofnað Félag áhugamanna um rekstur Kammerhljómsveitar Akureyrar. Tilgangur félagsins var að vera nokkurskonar bakhjarl hljómsveitarinnar og veita aðstoð við framkvæmd tónleika í sjálfboðavinnu. Kammerhljómsveit Akureyrar hélt fjölmarga tónleika. Það var ljóst frá upphafi að mannafli til að skipa stóra hljómsveit var ekki nægur á Akureyri og nágrenni þannig að oft var leitað eftir liðsauka á höfuðborgarsvæðinu og þá gjarnan fengnir til liðs við hljómsveitina brottfluttir Akureyringar sem voru starfandi tónlistarmenn á höfuðborgarsvæðinu.
Ýmsir hljómsveitarstjórar komu við sögu Kammerhljómsveitar Akureyrar. Sá sem þó oftast hélt um tónsprotann á þessum árum var Roar Kvam. Þegar Kammerhljómsveitin hafði skipað sér fastan sess í tónlistarlífinu á Akureyri var farið að vinna að því að styrkja stöðu hennar, m.a. með því að afla styrkja frá ríkinu. Haustið 1993 var nafni Kammerhljómsveitar Akureyrar breytt og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands formlega stofnuð. Var þetta m.a. gert að ráði Ingólfs Ármannssonar menningarfulltrúa Akureyrarbæjar til að auðveldara væri að leita fjárstuðnings frá ríkinu sem á þessum tíma fór að styðja við rekstur hljómsveitarinnar, fyrst beint en síðar í gegnum samning við Akureyrarbæ. Félag áhugamanna um Kammerhljómsveit Akureyrar hélt aðalfund þann 5. október 1993. Á þeim fundi var lagt til að félagið sameinaðist Tónlistarfélagi Akureyrar og þessi félög í sameiningu kæmu að stofnun Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.