Börn fyrir börn
Barnamenningarhátíðin Börn fyrir börn verður haldin í Hofi 16.febrúar þar sem hæfileikarík börn á öllum aldri taka þátt. Á meðal þeirra sem fram koma eru nemendur í Tónlistarskólanum á Akureyri, félagar úr Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri félagarnir Friðrik Ómar Jógvan og og kynnir er Lalli töframaður. Tilgangur hátíðarinnar er á meðal annars að skapa vettvang fyrir börn sem hafa áhuga á að taka þátt í menningarstarfi og styrkja gott málefni í leiðinni en á hátíðinni er tekið við frjálsum framlögum til styrktar barnadeildar FSA. Sparisjóður Höfðhverfinga er samstarfsaðili hátíðarinnar en þetta er í þriðja sinn sem að barnamenningarhátíðin Börn fyrir börn er haldin í Hofi.
HÆFILEIKARÍK BÖRN LEIKA LISTIR SÍNAR
Í haust var haldin hæfileikakeppni í tengslum við Barnamenningarhátíðina þar sem börn á aldrinum 10-16 ára voru hvött til að senda inn myndband þar sem að þau sýndu hæfileika sína. Fjöldi barna af öllu Norðurlandi sendu myndband í keppnina og voru sex af þeim valin til að koma fram í Hofi á barnamenningarhátíðinni. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Menningarhússins Hofs segir það ekki hafa komið á óvart hversu mikið af hæfileikaríkum krökkum hafi tekið þátt enda hafi hún á síðustu árum séð það að börn og ungmenni á norðurlandi búi yfir miklum hæfileikum og dugnaði, hinsvegar hafi fjölbreytileiki atriðanna sem send voru inn komið skemmtilega á óvart. „Þó svo að tónlistaratriði hafi verið áberandi af þeim atriðum sem send voru inn í hæfileikakeppnina þá var breiddin samt sem áður mikil. Það voru töfrabrögð, dansatriði, fimleikar og sirkuslistir á meðal atriða svo að eitthvað sé nefnt.“ Hún segir valið ekki hafa verið auðvelt en að það sé virkilega ánægjulegt að geta boðið þeim sex sem þóttu fremst á meðal jafningja í keppninni að koma fram í Hofi. „Frá því að Hof opnaði höfum við lagt áherslu á að hér sé boðið upp á fjölbreytta og aðgengilega dagskrá fyrir börn og ungmenni en okkur finnst ekki síður mikilvægt að skapa vettvang fyrir börn sem hafa áhuga á að taka þátt í menningarstarfi til þess að koma fram og er þessi hátíð liður í því.“ Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Höfðhverfinga segir það sérstaklega ánægulegt að fá að taka þátt í þessu verkefni með starfsfólki Hofs „Það er alltaf gaman að geta tekið þátt í því að stuðla að sköpun á meðal ungs fólks og við hjá Sparisjóðnum erum virkilega stolt af því að fá að koma að þessari flottu hátíð og hver veit nema að þarna stígi stórstjörnur framtíðarinnar sín fyrstu skref.“
Á hátíðardagskrá í Hamraborg koma fram auk þátttakenda í hæfileikakeppninni nemendur í Tónlistarskólanum á Akureyri, félagarnir Friðrik Ómar og Jógvan Hansen og kynnir er Lalli töframaður.
BARNASTUÐ FYRIR YNGSTU BÖRNIN
Auk hátíðardagskrár í Hamraborg verður boðið upp á Barnastuð í minni sal Hofs Hömrum þar sem þau Hjalti Jónsson og Eva Reykjalín virkja yngstu kynslóðina í söng og dansi. Dagskráin þar hefst klukkan ellefu og er enginn aðgangseyrir og allir velkomnir en búast má við miklu fjöri enda hafa eru þau Hjalti og Eva miklir stuðboltar sem eru þekkt fyrir að hrífa með sér í leik bæði börn og fullorðna.
BÖRN FYRIR BÖRN
Yfirskrift barnamenningarhátíðarinnar er Börn fyrir börn og Ingibjörg segir að í þessari yfirskrift felist í raun margþættur
tilgangur hátíðarinnar. „Með þessarri hátíð viljum við leggja eitthvað af mörkum til að stuðla að aukinni listsköpun
barna og um leið njóta menningar með börnunum að auki viljum við hvetja til aukins samstarf barna úr ýmsum listgreinum og síðast en ekki
síst viljum við nota tækifærið og láta gott af okkur leiða” en á hátíðinni er tekið við frjálsum framlögum sem
renna til barnadeildar FSA. Jón Ingvi segir það sérlega ánægjulegt að barnadeild FSA njóti góðs af þessu verkefni og er hann
viss um að það fé sem safnast muni koma að góðum notum.
Andrea Andrésdóttir barnalæknir á FSA segir hátíðina frábært framtak. „Stuðningur sem þessi skiptir okkur á
barnadeildinni verulegu máli enda er mestur hluti tækja á deildinni keyptur fyrir gjafafé, þannig að þetta mun koma að góðum
notum“.