Fara í efni

Fjölbreyttir viðburðir framundan í mars

Kvennakór Akureyrar býður til Góugleði í Hömrum, minni sals Hofs laugardaginn 5. mars kl. 16. Kórinn ætlar eingöngu að flytja íslenska tónlist eftir ýmsa höfunda, svo sem Megas, Inga T. Lárusson, Atla Heimi Sveinsson og marga fleiri.

Guðrún Gunnarsdóttir ásamt hljómsveit verða með tónleika í Hamraborg aðalsal Hofs laugardagskvöldið 5. mars kl. 20 til heiðurs Elly Vilhjálms en í desember síðastliðnum hefði Elly orðið 75 ára. Guðrún Gunnarsdóttir hélt tvenna tónleika í Salnum af þessu tilefni og nú er komið að því að bjóða Norðlendingum til sömu veislu.

Bráðum kemur betri tíð er heiti tónleika Kammerkórs Norðurlands sem flytur nýja efnisskrá íslenskrar kórtónlistar úr ýmsum áttum fimmtudagskvöldið 10. mars kl. 20:30 í Hömrum, minni sal Hofs. Frumflutt verða lög eftir m. a. Jaan Alavere, Snorra Sigfús Birgisson og Atla Ingólfsson. Einnig heyrast nýjar útsetningar Guðmundar Óla Gunnarssonar á 3 íslenskum þjóðlögum og lög Jóns Ásgeirssonar, Jóns Nordals og Heimis Sindrasonar við ljóð Laxness.

Íslenska óperan heimsækir Hof í fyrsta sinn föstudagskvöldið 11. mars nk. Hér er um nýstárlega útfærslu á hinu þekkta tónverki Schuberts að ræða, Svanasöngur, þar sem Lára Stefánsdóttir dansar við flutning þeirra Ágústs Ólafssonar baritónsöngvara og Gerrits Schuil píanóleikara. Sýningin var frumsýnd í Íslensku óperunni í febrúar síðastliðnum.

Íslenski flautukórinn verða með tónleika 12. mars kl. 17 í Hömrum, minni sal Hofs. Íslenska flautukórinn skipa um 20 flautuleikarar sem allir taka virkan þátt í íslensku tónlistarlífi. Gestir flautukórsins á tónleikunum verða norðlenskir flautuleikarar og nemendur auk Páls Barna Szabó á fagott og Þórarins Stefánssonar á píano. Einleikari í flautukonsertinum Lux er Melkorka Ólafsdóttir og stjórnandi er Hallfríður Ólafsdóttir, leiðandi flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Afmælis- og útgáfutónleikar Kristjönu Arngrímsdóttur - Tangó fyrir lífið verða í Hamraborg aðalsal Hofs 16. mars kl. 20.30. Þar mun hún flytja nýja og þekkta tangóa með valinkunnum tónlistarmönnum að norðan.

Minningartónleikar um sr. Pétur Þórarinsson í Laufási verða haldnir í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 19. mars kl. 20. Þar koma fram norðlenskir listamenn; hljóðfæraleikar, kórar, kvartett og einsöngvarar, en hljómsveitarstjóri verður Gunnar Þórðarson.

Þriðjudaginn 22. mars 20:00 verða tónleikar í Hömrum þar sem fram koma tveir kammerhópar skipaðir hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Annars vegar er það málmblásarakvintett og hinsvegar flauta og strengjatríó. Á efnisskránni verða verk eftir Árna Egilson, Samuel Scheidt, Victor Ewald og W.A. Mozart.

Karlakór Dalvíkur ásamt Matta Matt og rokkhljómsveit flytja lög Bítlanna og Queen í rokkuðum útsetningum Guðmundar Óla Gunnarssonar stjórnanda kórsins. Þessi dagskrá var flutt síðastliðinn vetur bæði sunnan og norðan heiða alltaf fyrir fullu húsi og hefur hlotið einróma lof þeirra er á hafa hlýtt.

Nánari upplýsingar um viðburði á www.menningarhus.is og í miðasölu Hofs s. 450 1000.

 

Til baka