Fullorðin í Þjóðleikhúsið
Hin rómaða sýning Fullorðin verður sýnd í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun september.
Sýningin var frumsýnd í Samkomuhúsinu í janúar 2021 og var fljótlega færð yfir í stóra salinn í Menningarhúsinu Hofi þar sem hún hélt áfram að kitla hláturtaugar áhorfenda.
Leikarar sýningarinnar eru Birna Pétursdóttir, Árni Beinteinn Árnason og Vilhjálmur B Bragason en þau eru einnig höfundar verksins.
„Þetta er eitt af skemmtilegustu verkefnum sem ég hef tekið þátt í og mér þykir alveg gríðarlega vænt um sýninguna og þær stórkostulegu viðtökur sem hún hefur fengið,“ segir Vilhjálmur.
„Viðbrögðin og viðtökurnar hafa verið algjörlega stórkostleg og fram úr björtustu vonum. Það jafnast auðvitað ekkert á það að þurfa bókstaflega að stoppa sýninguna af því það er hlegið svo mikið.“
Sýningin sló eftirminnilega í gegn í byrjun árs en hér eru dæmi um ummæli gesta:
„Mjög hnyttin, kjarngóð, kraftmikil og skemmtileg sýning.“
„Bráðfyndið um stundum pínlegar hliðar þess að verða fullorðinn. Birna vinnur leiksigur.“
„Þessi sýning sko. Ef þig langar að hlægja mjög mikið á stuttum tíma.“
„Frábær sýning í alla staði.“