Fara í efni

Hamrar og Hamraborg í Hofi

Nafnanefnd Akureyrarbæjar skipa Hólmkell Hreinsson sem er formaður, Jón Hjaltason og Kristín Árnadóttir. Nefndin segir að tillagan byggi á því að notuð séu örnefni úr bæjarlandinu,  og þá gjarnan nöfn sem hafa glatað hlutverki sínu og eru á góðri leið með að gleymast. Þannig hefur stóra salnum verið gefið nafnið Hamraborg, forsalurinn mun ganga undir nafninu Naust, og minni salurinn á jarðhæð mun heita Hamrar. Einnig má nefna Leyning sem er lítill sýningasalur sem stendur við Hamragil. Á efri hæðum má finna Bótina, Setberg, Lund, Dynheima, Sólheima, Grástein, Steinholt og Steinnes. Jón Hjaltason nefndarmaður segist vera ánægður með niðurstöðuna. “Nöfnin eru með skírskotun í bæjarlandið og tengjast öll sögu Akureyrar með einhverjum hætti”.

Á þriðju hæð Menningarhússins verður Tónlistarskólinn á Akureyri með starfsemi sína. Þar verða kennslustofur nefndar eftir tónskáldum sem tengjast Akureyri og Norðurlandi.
Þá liggur fyrir að veitingastaðurinn í Hofi mun bera nafnið 1862 nordic bistro og segja aðstandendur rekstursins að þarna sé verið að tengjast sögu bæjarins með tilvísun í það ár sem að Akureyri fékk kaupstaðarréttindi.  1862 nordic bistro er kaffihús og veitingastaður sem verður opinn daglega og býður fjölbreytt úrval veitinga.

 

Til baka