Heimsókn hópa í leikhúsið
Leikfélag Akureyrar tekur á móti ýmsum hópum árið um kring. Þannig kynnum við starfsemi okkar og hittum fólk sem auðgar anda okkar og tekur þátt í mótun á starfinu. Hin ýmsu skólastig hafa kíkt við allt frá leikskólum upp í háskóla. Á árshátíð Oddeyrarskóla í janúar settu nemendur upp atriði úr Gullna hliðinu og komu að því tilefni í Samkomuhúsið til að kynna sér hvernig atvinnuleikhús færi að við uppsetningu verksins. Nemendur Verkmenntaskólans og Menntaskólans á Akureyri eru tíðir gestir, hafa komið á æfingar þar sem boðið er upp á umræður við listamenn og brot úr sýningum. Nemendur hafa komið á sýningar í kjölfarið og unnið verkefni upp úr þessum heimsóknum. Við bjóðum einnig upp á heimsóknir klúbba og félagasamtaka. T.a.m hafa Oddfellow félagar heimsótt okkur auk þess sem alþjóðlegt konukaffi var haldið á Borgarasal í liðnum mánuði. Í samvinnu við Alþjóðaskrifstofu Akureyrarbæjar komu til okkar yfir 20 konur af hinum ýmsu þjóðernum og kynntu sér starf leikhússins. Það er mál þeirra sem hafa fengið slíkar kynningar að það komi þeim skemmtilega á óvart hve starfsemi Leikfélags Akureyrar er öflug. Þeir sem áhuga hafa á að kíkja til okkar í heimsókn er bent á að hafa samband við Silju Dögg Baldursdóttur, markaðsfulltrúa, í síma 4 600 204 eða á netfangið silja@leikfelag.is.