Fara í efni

Hof í samstarf við tvö norðlensk fyrirtæki

Við undirritunina í Hofi.
Við undirritunina í Hofi.

Á tveggja árs starfsafmæli Hofs var undirritaður samstarfssamningur við tvö rótgróin norðlensk ferðaþjónustufyrirtæki, Hótel KEA og Bílaleigu Akureyrar-Höldur.

Hótel KEA er eitt af þekktustu kennileitum Akureyrar og er hótelið næstelsta hótel landsins „Það er okkur gríðarlega mikils virði að eiga í góðu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu“ segir Ingibjörg Ösp. „Við leggjum okkur fram við í okkar starfi að halda á lofti merki norðlenskra fyrirtækja sem eru mörg hver að standa sig virkilega vel og við erum ákaflega stolt af því að geta bætt þessum tveimur öflugu fyrirtækjum í hóp samstarfsaðila Menningarhússins Hofs.“ Í báðum tilfellum er um samning til eins árs að ræða.

 Samstarfið við Hótel KEA felur meðal annars í sér að hótelið er einn af styrktaraðilum „Kórahátíðar í Hofi“ í október og á afmælisvökunni um helgina bauð Hótel KEA bæjarbúum á opna tónleika Óskars Péturssonar og Bjarna Hafþórs Helgasonar í Hofi. „Við erum stolt af því að eiga í samstarfi við Menningarhúsið Hof og fá tækifæri til að koma að því góða starfi sem þar er unnið“ segir Hrafnhildur E. Karlsdóttir hótelstjóri á Hótel KEA.

Bílaleiga Akureyrar-Höldur er stærsta bílaleiga landsins en upphaf fyrirtækisins má rekja aftur til ársins 1966 þegar að Bílaleiga Akureyrar var stofnuð. Samstarf Hofs og Bílaleigu Akureyrar-Hölds felur meðal annars í sér sérkjör á bílaleigubílum. Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar-Hölds segir það hafa verið ánægjulegt að fylgjast með starfinu í Hofi frá opnun hússins fyrir tveimur árum. „Við styðjum gjarnan við starfssemi sem þessa og erum mjög stolt af því að vera m.a. einn af stofnaðilum Menningarfélags Hofs. Það er ljóst að velgengni Hofs hefur jákvæð áhrif á samfélagið allt hér fyrir norðan“ segir Steingrímur.

Til baka