Hrafnhildur Hagalín tilnefnd til Menningarverðlauna DV
Hrafnhildur Hagalín hefur verið tilnefnd til Menningarverðlauna DV og bætir þar með enn einni fjöðrinni í hatt sinn. Í umsögn dómnefndar segir: Hrafnhildur Hagalín er án efa í hópi okkar fremstu leikskálda og leikrit hennar vekja alltaf forvitni og eftirtekt. Með leikritinu Sek sem frumsýnt var hjá Leikfélagi Akureyrar haustið 2013 fer Hrafnhildur enn nýjar leiðir í leikritun sinni. Verkið er gjörólíkt fyrri verkum hennar, bæði að innihaldi og formi en hún sækir efni þess í gamalt dómsmál frá öndverðri nítjándu öld til að fjalla um áleitnar spurningar um sekt í kynferðisafbrotum gagnvart börnum á okkar dögum. Hrafnhildur nær áhrifaríkum tökum á efninu með því að ljá persónum þess raddir á ljóðrænu og kjarnyrtu máli sem fléttast saman við stigmagnandi seið." Tilkynnt verður um hver hlýtur verðlaunin 11. mars.