Fara í efni

Í minningu Péturs

Kórarnir sem syngja á tónleikunum eru Hymnodia og kammerkórinn Ísold undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar og sameinaðir sóknarkórar sr. Péturs, sem Petra Björk Pálsdóttir stjórnar, Álftagerðisbræður syngja eins og þeim einum er lagið og einsöngvarar og einleikarar verðam.a. Lára Sóley Jóhannsdóttir, Hjalti Jónsson, Óskar Pétursson, Örn Viðar Birgisson og Sveinn Dúa Hjörleifsson. Jafnframt verður á tónleikunum, milli laga, brugðið upp myndbrotum úr lífi Péturs, m.a. myndum frá eftirminnilegum tónleikum, sem haldnir voru í Glerárkirkju til styrktar Pétri fyrir hálfum öðrum áratug.

Norðlensku listamennina þarf tæpast að kynna fyrir Norðlendingum. Kórinn Hymnodia er skipaður þrautþjálfuðum söngvurum og hefur sungið hérlendis og erlendis, auk þess að syngja inn á hljómplötur. Kammerkórinn Ísold er skipaður ungum konum á aldrinum 17-26 ára. Báðir kórarnir eru undir stjórn Eyþór Inga Jónssonar, orgelleikara við Akureyrarkirkju.

Hjalti Jónsson, tenór, og Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðlusnillingur, eru einstakir tónlistarmenn og húmoristar, líkt og Örn Viðar Birgisson og Óskar Pétursson og bræður hans frá Álftagerði, sem hafa sungið fyrir Norðlendinga allt frá vöggu til grafar undanfarna áratugi. Sveinn Dúa hefur undanfarin misseri verið við nám og söng í Vínarborg og talinn af tónlistarfólki einn efnilegasti tenórsöngvari landsins. Til marks um það hefur hann verið valinn til að syngja við opnunarhátíð í tónleikahöllinni Hörpu í Reykjavík í maí, ásamt Kristni Sigmundssyni. Á meðan Sveinn var í söngnámi kom hann gjarnan heim um hátíðar ogsöng við messur í Laufási, en hann og Pétur voru miklir vinir enda nátengdir.Sveinn er systursonur Ingibjargar, ekkju Péturs. Móðir hans er Sigþrúður "Dúa" Siglaugsdóttir, sem lést úr krabbameini í október 2006. Í hljómsveitinni verða norðlenskir hljóðfæraleikarar, en Gunnar Þórðarson sérum útsetningar og hljómsveitarstjórn. 

Það verður því „tekið á því“ og jafnframt sungið inn að innstu hjartarótum á minningartónleikum sr. Péturs. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni þess, að Pétur hefði orðið sextugur á árinu, en hann lést 1. mars2007 eftir langvinn veikindi. Rót þeirra mátti rekja til sykursýki, sem herjaði á Pétur allt frá barnsaldri.  Auk tónleikanna verður gefin út bók í minningu Péturs, sem kemur út á afmælisdegi hans í júlí. Í bókinni verða minningar samferðamanna um Pétur, auk valdra kafla úr ræðum hans, predikunum og greinaskrifum. Jafnframt mun fylgja bókinni DVD diskur með heimildamynd um Pétur eftir Gísla Sigurgeirsson, kvikmyndagerðarmann.

Til baka