Fara í efni

Íslandsklukkan

Íslandsklukkan var frumsýnd þann 22. apríl á liðnu vori, í tilefni af 60 ára afmæli Þjóðleikhússins. Sýningin fékk frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda og var sýnd fyrir fullu húsi fram á sumar. Sýningin hlaut 11 tilnefningar til Grímunnar, meðal annars sem sýning ársins. Ingvar E. Sigurðsson hlaut Grímuna fyrir túlkun sína á Jóni Hreggviðssyni og Björn Thors hlaut Grímuna fyrir leik sinn í hlutverki Magnúsar í Bræðratungu. Einnig fengu höfundar tónlistar og búninga sýningarinnar Grímuna.

Íslandsklukkan hefur í gegnum tíðina notið gífurlegra vinsælda hjá íslensku þjóðinni, jafnt á bók sem á leiksviði. Verkið var fyrst sett á svið þegar Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 og var sú sýning ein af þremur opnunarsýningum leikhússins. Svipmiklar aðalpersónur verksins, Jón Hreggviðsson, Snæfríður Íslandssól og Arnas Arnæus, hafa eignast vissan stað í hjarta Íslendinga. Í því þjóðfélagslega umróti sem við lifum nú, á þetta stórvirki um tilvistarspurningar sem lítil þjóð stendur frammi fyrir brýnt erindi við okkur.

Íslandsklukkan gerist á miklu niðurlægingarskeiði í sögu íslensku þjóðarinnar, alþýðan býr við fátækt og skort, þarf að þola hörku og vægðarleysi yfirvalda og landið logar af deilum valdamikilla hagsmunaaðila. En, eins og alltaf, þá elskar fólk og á sér vonir og drauma. Saga þjóðarinnar og dramatísk örlög einstaklinga tvinnast saman í sígildu verki um niðurlægingu og reisn, mótlæti, vonbrigði og hugrekki.

Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Búningar: Helga Björnsson. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson og Lárus Björnsson. Tónlist: Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson.

Leikarar: Ingvar E. Sigurðsson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson/Benedikt Erlingsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Arnar Jónsson, Björn Thors, Jón Páll Eyjólfsson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Erlingur Gíslason, Ólafur Darri Ólafsson, Ólafur Egill Egilsson, Herdís Þorvaldsdóttir, Kjartan Guðjónsson, Þórunn Lárusdóttir, Anna Kristín Arngrímsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir.

Til baka