Ljóðasöngvar Jóns Hlöðvers Áskelssonar
Ljóðalög Jóns Hlöðvers
Um ljóðið
ljóð: Ólafur Haukur Símonarson
Hrif
ljóð: Jón Bjarman
Í garði
ljóð: Sigurður Ingólfsson
Vísur um draum
Tólf söngvar úr ljóðabókinni „Vísur um drauminn“
eftir Þorgeir Sveinbjarnarson
Eins og tréð
Á gangstéttinni
Næturferð
Upp úr hádegi
Bráð
Í brekkunni
Þrastahjón
Hún
í Afríku
Hvítmyrkur
Ljósbeygur
Lauf
Söngvasveigurinn Mýrarminni
Ég veit einn dal
ljóð: Sverrir Pálsson
Auðir bíða vegirnir
ljóð: Snorri Hjartarson
Svefnvindadraumur
ljóð: Jón Bjarman
Tónskáldið segir um verk sín:
“Lagið við “Um ljóðið” var samið að beiðni Jónasar Ingimundarsonar fyrir ljóðahátíð í
Gerðubergi. Margrét sendi mér svo á sínum tíma ljóð Jóns Bjarman “Hrif” og reyndar “Í garði”
líka en lagið við ljóð Sigurðar samdi ég fyrir og tileinkaði Margréti. Tólf ljóð úr ljóðabók Þorgeirs
Sveinbjarnarsonar „Vísur um drauminn“ valdi ég saman í sönglagaflokk, sem ég kallaði einfaldlega Vísur um draum. Val ljóðanna
tók að einhverju leyti mið af skynjun minni á ljóðunum á umhverfi mínu og á nærveru náttúruaflanna í þeim.
Einnig réð valinu sú dæmalausa dramatíska spenna í bland við ljóðræna mýkt og oft mikla angurværð sem þau búa
yfir. Í fyrsta ljóðinu er hvatningin
að vera eins og tré, en í síðasta ljóði lagaflokksins er það laufið sem er fögnuður trésins, sem sameinast að haustinu mold,
himni og jörð. Er það haust lífsins og erum við laufin? Í söngvasveignum sem ég kýs að nefna Mýrarminni kalla ég til
fulltingis þrjú góðskáld,
þ.e. Jón Bjarman, Sverri Pálsson og Snorra Hjartarson. Tengslin við yfirskrift söngvanna, Mýrarminni, eru augljós í fyrstu tveimur
kvæðunum, þar sem æskuminningar úr Bárðardal og frá óðali föðurættar minnar Mýri eru til umfjöllunar.
Ljóð Sverris varpar fallegu ljósi á snaran þátt söngs og tóna á Mýrarheimilinu í uppvexti föður míns og reyni
ég í þeim söng að draga af þeim Mýrarsöng gleðjandi mynd. Ljóð Snorra Hjartarsonar vekur söknuð eftir þeirri
ljúfu stemmingu sem þar ríkti, en í lokin eru það þó fljúgandi svartþrestir með sólblik í vængjum sem ná
yfir hinn auða veg. Jón Bjarman fer í ljóði sínu Svefnvindadraumur miklum draumförum frá Bjarnarstöðum í Bárðardal og
í lokin mun skáldið syngja með Mýrarmönnum og landinu þegar yfir straumhratt Skjálfandafljót er komið.“
Um tónskáld og flytjendur:
Jón Hlöðver Áskelsson fæddist á Akureyri árið 1945 og ólst þar upp. Tónlistarnám stundaði hann við Tónlistarskólann á Akureyri 1955-1965, jafnhliða almennri menntun, en stúdentsprófi lauk hann frá Mennta-skólanum á Akureyri vorið 1965. Síðar lá leið hans í Tónlistarskólann í Reykjavík haustið 1965, þaðan lauk hann söngkennaraprófi (tónmenntakennaraprófi) vorið 1967. Framhaldsnám í tónlist stundaði hann síðan við Mozarteum akademíuna í Salzburg Austurríki - Orff Institut 1967 - 1969 og við tónlistarháskólann í Hannover í Þýskalandi 1969-1970. Haustið 1970 gerðist Jón Hlöðver kennari við Tónlistarskólann á Akureyri og síðar skólastjóri við sama skóla 1974-1982 og aftur frá 1984-1991. Á árunum 1982-84 starfaði hann sem námsstjóri tónlistarskólanna við Menntamálaráðuneytið. Framkvæmdastjóri Kammerhljómsveitar Akureyrar var hann í sex ár. Tónsmíðar hafa verið aðalstarf hans frá árinu 1990. Hann var valinn bæjarlistamaður Akureyrar árið 1990 og hlaut síðar fjögurra ára starfslaun úr Tónskáldasjóði. Jón Hlöðver hefur auk tónsmíða verið þátttakandi í félagsstörfum á ýmsum sviðum og hefur um árabil verið formaður (stofnandi) Jazzklúbbs Akureyrar og ritari í stjórn Sjálfsbjargar á Akureyri. Hann var um 6 ára skeið formaður stjórnar Sjálfsbjargarheimilisins í Reykjavík og stjórnarmaður í Gilfélaginu frá stofnun félagsins 1991 til ársins 2008. Hann kvæntist Sæbjörgu Jónsdóttur í júní 1969 og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn.
Margrét Bóasdóttir er fædd og uppalin í Mývatnssveit. Hún lauk almennu kennaraprófi, tónmenntakennaraprófi og burtfararprófi í einsöng og stundaði síðan framhaldsnám í Þýskalandi og lauk einsöngskennaraprófi og lokaprófi í einsöng ásamt sérnámi í ljóða- og óratoríusöng. Margrét hefur starfað að söngkennslu og kórstjórn á Ísafirði, við Tónlistarskólann á Akureyri, í Þingeyjarsýslu og í Árnessýslu. Hún kenndi við Söngskólann í Reykjavík í tíu ár fram til ársins 2007 og byggði upp unglingadeild, 14-16 ára og síðan yngri deild 10-13 ára, ásamt almennri söngkennslu og umsjón og kennslu í kennaradeild skólans. Margrét kenndi við guðfræðideild Háskóla Íslands í tvö ár og annaðist umsjón og skipulagningu endurmenntunarnámskeiða fyrir stjórnendur barnakóra í tíu ár ásamt ritstjórn og umsjón útgáfu söngbóka fyrir barnakóra, kvennakóra og blandaða kóra á vegum Skálholtsútgáfunnar. Margrét var formaður Félags íslenskra tónlistarmanna 1999-2008, í stjórn Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda og var formaður stjórnar Íslensku tónlistarverðlaunanna frá 2001-2007. Margrét situr í stjórn Listahátíðar og í stjórn Listamannalauna. Margrét lauk MBA námi í viðskiptum og stjórnun frá Háskóla Íslands vorið 2006 og starfaði sem framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra listamanna árið 2007. Hún starfaði í Þjóðleikhúsinu 2008 -2010 sem aðstoðarmaður þjóðleikhússtjóra og mannauðsstjóri. Margrét hefur haldið fjölmarga ljóðatónleika og sungið einsöng í mörgum helstu tónverkum kirkjutónbókmenntanna, hér heima, víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum. Árið 1999 gaf Íslensk tónverkamiðstöð út hljómplötuna “Gjafir andans” þar sem Margrét og Björn Steinar Sólbergsson, orgelleikari flytja íslenska kirkjutónlist. Önnur plata með lögum úr fornum handritum er væntanleg. Margrét stjórnar Kvennakór Háskóla Íslands og var framkvæmdastjóri 6. norrænu-baltnesku kórahátíðarinnar sem haldin var í Reykjavík í ágúst síðastliðnum.
Daníel Þorsteinsson píanóleikari stundaði sitt tónlistarnám í fæðingarbæ sínum, Neskaupstað, við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskólann í Reykjavík. Famhaldsprófi lauk hann frá Sweelinck tónlistarháskólanum í Amsterdam árið 1993. Daníel hefur komið fram víða um heim í einleik og samleik, auk þess sem hann hefur samið og útsett tónlist fyrir leikhús, söngvara og kóra, og leikið inn á fjölda hljómdiska tónlist af ýmsu tagi. Hann stóð m.a. að útgáfu tveggja geisladiska með eyfirskum sönglögum: “Það ert þú Eyjafjörður - ljóð og lag” er hefur að geyma lög og ljóð eyfirskra tón- og ljóðskálda í flutningi Daníels og Bjargar Þórhallsdóttur og “Vorperla”, geisladiskur með sönglögum Garðars Karlssonar í útsetningu Daníels og flutningi hans og Huldu Bjarkar Garðarsdóttur. Samstarf Sigurðar Halldórssonar sellóleikara og Daníels hefur staðið um árabil. Þeir hafa m.a. flutt öll verk Beethovens fyrir píanó og selló á tónleikum í Salnum í Kópavogi, í Kaupmannahöfn og í Færeyjum, skipulagt tónlistarhátíðir með þátttöku fjölmargra listamanna í Reykjavík og á Akureyri og um þriggja ára skeið fluttu þeir, ásamt Mörtu Hrafnsdóttur altsöngkonu, kammeróperuna Hugstolinn á Listahátíð í Reykjavík, í Belgíu, Færeyjum, á Grænlandi og Álandseyjum. Með CAPUT hópnum hefur Daníel komið víðsvegar fram m.a. á Norðurlöndunum, Ítalíu, í Kanada, Bandaríkjunum og á heimssýningunni í Japan árið 2005. Daníel hefur þrívegis notið starfslauna frá íslenska ríkinu og árið 2000 var hann tilnefndur bæjarlistamaður á Akureyri. Daníel býr í Eyjafjarðarsveit, kennir við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar, starfar sem organisti og kórstjóri við Laugalandsprestakall í Eyjafirði og stjórnar Kvennakór Akureyrar.
Miðaverð er 2.000 krónur en frítt verður inn fyrir 20 ára og yngri.