Fara í efni

Menning í dag, menning á morgun?

Menningarhúsið Hof og Tónlistarskólinn á Akureyri efna til málþingsins, yfirskriftin er „Menning í dag, menning á morgun?” 

Frummælendur:

Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdarstjóri Akureyrarstofu Mósaíkmyndin Akureyri
Í erindinu mun hann draga upp mynd af menningarstarfi á Akureyri. Meginspurningar verða: Hvað er þetta menningarlíf, hvar kemur opinber stuðningur við sögu, hvaða stefnu hefur Akureyrarbær fylgt hingað til og hvað er framundan?

Pétur Halldórsson, menningarviti. Akureyri á heimsmælikvarða – að hugsa hátt eða lágt í menningarlífinu.
Í erindinu fjallar hann um að Akureyringar þurfi að hugsa jafnhátt í menningarstarfinu sjálfu og þeir hugsuðu þegar ákveðið var að reisa menningarhús fyrir þrjá milljarða króna. Stefna verður að því að á Akureyri starfi listafólk sem er að minnsta kosti á landsmælikvarða, helst á heimsmælikvarða. Þar skiptir þrennt mestu máli, menntun, reynsla og eldmóður. Til þess að þetta megi takast verði að fá fyrirtæki og stofnanir í bænum til að styðja við menningarlífið með myndarlegri hætti. Hann ætlar líka að vekja athygli á milljónastyrkjum fyrirtækja á Akureyri og nágrenni við Frostrósir og jólatónleika Björgvins Halldórssonar fyrir nýliðin jól.

Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við viðskiptafræðideild HÍ og umsjónarmaður rannsókarmiðstöðvar skapandi greina
Skapandi atvinnugreinar á Íslandi 
Margrét hefur undnanfarna mánuði unnið við kortlagningu skapandi greina á Íslandi, en frum niðurstöður hennar voru kynntar fyrir fullu húsi í Bíó Paradís 1. desember síðast liðinn. Margrét mun kynna helstu niðurstöður kortlagningarinnar og hver næstu skref í rannsóknum á skapandi atvinnugreinum eru.

Trond Wika, fiðluleikari/kennari Tengslin á milli mennta- og menningarstofnana
Norðmaðurinn Trond Wika nam fiðluleik við Norska Ríkistónlistarháskólann í Oslo og í Bandaríkjunum þar sem hann lagði stund á kammer- og einleikstónlist.  Hann Debúteraði í París og hefur síðan þá leikið á tónleikum víðs vegar um heiminn sem einleikari og meðlimur í kammersveitum.  Trond hefur verið ríkislistamaður í Morsjöen síðan árið 1997 þar sem hann leiðbeinir nemendum sem hafa náð góðum árangri í stórum tónlistarkeppnum og starfar í dag sem stjórnandi Helgeland Sinfoniettunnar.

Dr. Bjarki Valtýsson, aðjúnkt við IT háskólann í Kaupmannahöfn.
Íslensk menning árið 2050 – Hlutverk sveitarfélaga
Hann byggir erindið á rannsókn sinni um íslenska menningarpólitík og mun hann sérstaklega beina sjónum að framtíðarhorfum íslenska menningarvettvangsins og stöðu sveitarfélaga innan hans.

Einnig fara fram pallborðsumræður og þar taka þátt, Gunnar Gíslason fræðslustjóri á Akureyri, Halla Björk Reynisdóttir formaður stjórnar Akureyrarstofu, Karitas H. Gunnarsdóttir skrifstofustjóri menningarmála hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Pétur Halldórsson , Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir og Dr. Bjarki Valtýsson. Fundarstjóri er Jón Hrólfur Sigurjónsson.

Málþingið fer fram í Hömrum, 1. hæð, Hofi og stendur frá kl. 13.00-17.00. Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir. Skrá þarf þátttöku fyrir 17. febrúar á netfangið: larasoley@menningarhus.is

 

 

 

 

 

Til baka