Fara í efni

Nýtt tónleikaár SN að hefjast

Vetrardagskrá  Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verður fjölbreytt og litrík í vetur. Hún hefst á því að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður Sinfóníuhljómsveit Íslands innilega velkomna föstudaginn 21. september næstkomandi.

Mikil tilhlökkun ríkir hjá hljóðfæraleikurum SÍ á norðurferð. Tvö meistaraverk verða á efnisskránni Sellókonsert nr. 1 í C-dúr eftir Haydn og Sinfónía nr. 5 eftir Tchaikovsky sem ber höfundi sínum fagurt vitni. Einleikari í sellókonsert Haydns er Bryndís Halla Gylfadóttir sem er Íslendingum að góðu kunn fyrir framúrskarandi leikgleði og syngjandi flutningsmáta.

Ilan Volkov, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er mikill hvatamaður að auknum samskiptum á milli flytjenda og áheyrenda og hefur frá komu sinni til Íslands verið atkvæðamikill í flutningi nýrrar tónlistar. Hann stjórnar nú sínum fyrstu tónleikum á landsbyggðinni og er vel við hæfi að þeir séu í menningarhúsinu Hofi, tónleikarnir hefjast kl. 19:30.

Framhaldið á vetrardagskrá SN heldur áfram í nóvember en þá verður boðið upp á litríka kammertónleika þar sem samspil píanós, fiðlu og trompets hljómar. Fyrstu helgina í aðventu þegar jólatilhlökkunin og jólaljósin kvikna mun hinn heillandi tenór Gissur Páll Gissurarson ásamt barnakórum Akureyrarkirkju stíga á stokk og flytja mörg uppáhaldsjólalög þjóðarinnar ásamt hinu fallega verki “Snjókarlinum” eftir Howard Blake. Í febrúar verður boðið upp á glæsilega óperutónleika þar sem SN og efnilegir og langt komnir nemendur frá söngdeild Tónlistarskólans á Akureyri og óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz sameina krafta sína og flytja valda kafla úr óperum Bellinis. Mars hefst á kammertónleikum þar sem rómantík og létt stemning mun ráða ríkjum. Í lok sama mánaðar verða að venju Stórtónleikar á skírdag. Nemendur Tónlistarskólans á Akureyri og Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, ganga til liðs við SN og fara í ferðalag um tímann þar sem ástríðufull sinfónía nr. 6 eftir Tchaikovsky og Star Wars svíta  eftir John Williams munu kallast á. Þegar dregur að lokum tónlistarársins í apríl verður leikið á litróf tilfinninganna með barokktónleikum í samstarfi við Kór Akureyrarkirkju og Barokksmiðju Hólastiftis svo búast má við fjölmennum og kraftmiklum tónleikum.

Til baka