Sek valið í Norrænu leikskáldalestina
Leikritið Sek eftir Hrafnhildi Hagalín hefur verið valið af valnefnd Leiklistarsambands Íslands og Félags leikskálda og handritshöfunda til þátttöku fyrir Íslands hönd í Leikskáldalest Norrænu sviðslistadagana sem fram fara í júní næstkomandi.
Leikskáldalestin sviðsetur leiklestur á völdum verkum frá Norðurlöndunum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi og er lestin starfrækt annað hvert ár.
Sek var frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar í október síðastliðinn undir leikstjórn Ingibjargar Huldar Haraldsdóttur og byggir á dómsmáli frá 19. öld. Lífsþræðir ábúenda og vinnumanns í Rifshæðarseli á Melrakkasléttu fléttast saman í örlagaríkum ástarþríhyrningi. Með því að styðjast við texta og tilsvör úr dómskjölum frá þessum tíma byggir höfundurinn, Hrafnhildur Hagalín, upp spennandi atburðarás sem kemur áhorfandanum sífellt á óvart.
Hrafnhildur Hagalín er eitt af fremstu leikskáldum landsins. Hún hlaut leikskáldaverðlaun Norðurlanda árið 1992 fyrir leikrit sitt Ég er meistarinn ásamt þvi að hljóta Norrænu Útvarpsleikhúsverðlaunin og Grímuna 2013 fyrir útvarpsverkið Opið hús. Önnur leikrit Hrafnhildar eru m.a. Hægan Elektra, Norður, útvarpsverkið Einfarar og leikgerð að Sölku Völku