Fara í efni

Úrval viðburða á Afmælisvöku

Menningarhúsið Hof heldur upp á tveggja ára starfsafmæli og fagnar 150 ára afmæli Akureyrarbæjar um helgina. Það eru allir velkomnir í Hof um helgina en dagskráin endurspeglar fjölbreytileikann í vetrardagskránni framundan.

Tveggja ára starfsafmæli Hofs á Afmælisvöku Akureyrar

  • Norðlensk tónskáld og tónlistarfólk afhenda bænum tónagjöf í afmælisgjöf
  • Götustemmning í Hamragili – dagskrá fyrir alla fjölskylduna
  • Stemning – í Hofi: Ljósmyndasýning með myndum frá fyrstu tveimur starfsárum Hofs

Í kvöld á afmælisdegi Akureyrar afhenda norðlensk tónskáld og tónlistarmenn Akureyrarbæ tónagjöf í afmælisgjöf en í dag opnar einnig ljósmyndasýningin Stemning – í Hofi í Hamragili en þar eru sýndar svipmyndir frá fyrstu tveimur starfsárum hússins.

Bæði föstudagskvöld og laugardagskvöld verður opið hús í Hofi með lifandi götustemningu þar sem vinir Hofs koma fram víðsvegar um húsið frá kl.22. Á meðal þeirra sem fram koma eru Hvanndalsbræður, The beasts of Odin, Kvennakór Akureyrar, meðlimir úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og fleiri.

Á föstudagskvöldinu munu þeir Bjarni Hafþór Helgason og Óskar Pétursson ásamt hljómsveit flytja lög af nýútkomnum geisladisk Ég sé Akureyri og þar á meðal er samnefnt Akureyrarlag sem samið var sérstaklega í tilefni 150 ára afmælis bæjarins. Tónleikarnir fara fram í Hamraborg og bjóða Hótel Kea og Hof alla velkomna.

Á laugardaginn kl.16 bjóða “tenórarnir tveir” þeir Gunnar Björn Jónsson og Snorri Snorrason bjóða uppá létta klassíska dagskrá í Hömrum undir yfirskriftinni Hátíðarsöngvar til þín. Undirleikari er Aladár Rácz.

Á laugardagskvöldinu eru það leikararnir Halli og Gói (Hallgrímur Ólafsson og Guðjón Davíð Karlsson) ásamt hljómsveit sem stíga á stokk og flytja Lögin úr leikhúsinu í glæsilegri umgjörð í Hamraborg og hefjast tónleikarnir að lokinni flugeldasýningu.

Á sunnudaginn kl.12.45-15 verður Sniglabandið í góðu skapi í Hamraborg í beinni útsendingu á Rás 2 og vinkonurnar Skoppa og Skrítla taka á móti börnum í Hömrum kl.11.30 í boði Norðurorku og 1862 Nordic Bistro.

Sjáumst í Hofi!

Til baka