Fara í efni

Víkingur Heiðar í Hofi - Vegna rýmri sóttvarnarreglna eru enn til miðar

Víkingur Heiðar Ólafsson heldur sínu striki og spilar í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 13. mars kl. 20. Vegna rýmri sóttvarnarreglna eru til nokkrir miðar á tónleikana! Tilefni tónleikanna er 10 ára afmæli Hofs og 50 ára afmæli Listahátíðar í Reykjavík.

 

Víkingur Heiðar er meðal eftirsóttustu einleikara sinnar kynslóðar. Hann hlaut nýverið hin virtu þýsku tónlistarverðlaun; Opus Klassik sem píanóleikari ársins, annað árið í röð. Nú var hann verðlaunaður fyrir upptöku sína á verkum frönsku tónskáldanna Debussy og Rameau sem hefur hvarvetna hlotið einróma lof. Á tónleikunum í Hofi sem og á opnunartónleikum Listahátíðar í Reykjavík mun Víkingur flytja efnisskrá nýju einleiksplötu sinnar sem kom út hjá Deutsche Grammophon fyrr á þessu ári.

 

„Það var ógleymanlegt að taka þátt í opnunartónleikum Hofs fyrir 10 árum. Það er því mikið tilhlökkunarefni að koma og halda einleikstónleika á vegum Hofs og Listahátíðar í þessu glæsilega tónleikahúsi í tilefni af 10 ára afmæli hússins,“ segir Víkingur Heiðar.

 

Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri í Hofi, segir óvenjulega tíma í viðburðahaldi kalla á nýja möguleika og skemmtileg tækifæri. „Lítil hugmynd vatt uppá sig og nú eru tónleikar með Víkingi Heiðari í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík hluti af afmælisveitingum okkar. Það er sérstaklega gaman að fá Víking Heiðar í hús á ný og löngu tímabært og um leið fagna ég samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Þetta er bara byrjunin á góðu sambandi vaxandi afmælisbarna.“

Til baka