Fara í efni

Fiðringur á Norðurlandi

Fiðringur er dýrmætur vettvangur fyrir unglingana á Norðurlandi eystra til að láta rödd sína heyrast.

Fiðringur á Norðurlandi var fyrst haldinn árið 2022. Skrekkur í Reykjavík og Sjálftinn á Suðurlandi eru fyrirmyndir Fiðrings sem er dýrmætur vettvangur fyrir unglingana á Norðurlandi til að láta rödd sína heyrast og sinna listsköpun með jafnöldrum.

Allt frá 8 og uppí 12 skólar hafa tekið þátt á hverju ári og er það von verkefnastýra að í framtíðinni taki þátt allir grunnskólar sem vettlingi geta valdið frá Borðeyri til Bakkafjarðar!

Margir skólar eru farnir að bjóða upp á Fiðring sem valgrein og er það langbesta fyrirkomulagið svo engir árekstrar verði við aðrar tómstundir unglinganna. Þetta er sviðslistahátíð þar sem unglingarnir fá að tjá sig í gegnum sköpun á þann þátt sem þeim hentar best. Þau semja allt sjálf; leikrit, tónlist, dansa ásamt því að sjá um búninga, leikmynd, hljóðmynd og víedeó. Það þjálfar mjög samkenndarstöðina að setja sig í spor annarra en það eru þau alltaf að gera á sviðinu. Það hefur verið magnað að verða vitni að uppskerunni þegar liðin stíga á svið í HOFI á Fiðringskvöldinu og sjá þau hreinlega blómstra.

Lýðræði er einn af hornsteinum Fiðrings og unglingarnir taka þátt í öllum ákvarðanatökum. Þannig er valið á listamanni sem kemur fram í dómarahléi ákveðið út frá hvaða lag ungmennin velja sem Fiðringslag. Einnig senda þau inn tillögur að baksviðspössum og kjósa svo eina tillögu sem er prentuð út og allir fá um hálsinn.

RÚV hefur tekið upp atriðin og birt þau á sínum miðlum. Hægt er að sjá þau hér.

 

SSNE hefur tryggt verkefninu fjármagn til ársins 2026 en verkefnið er á vegum Menningarfélags Akureyrar að frumkvæði Maríu Pálsdóttur leikkonu sem er verkefnastjóri ásamt Heru Jónsdóttur og Kristínu Sóleyju Björnsdóttur.

Hægt er að fylgjast með Fiðringi á Facebook og á Instagram.