Ársafmæli Hofs
Hér að neðan er dagskrá helgarinnar í tímaröð:
Hangandi skúlptúrar í skóstærð
Árleg sýning Myndlistarfélagins í Hofi. Opnun sýningarinn verður föstudaginn 26. ágúst kl. 17. Á sýningunni eru
ólík verk félagsmanna. Sýningin verður í Hofi fram í október.
Óperutöfrar á Akureyrarvöku
Starfsár Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hefst í Hofi með Óperutöfrum föstudagskvöldið 26. ágúst. Þar sameina
krafta sína undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, hluti af landsliði íslenskra einsöngvara
þau Helga Rós Indriðadóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Ágúst Ólafsson og skagfirski
Karlakórinn Heimir. Á efnisskránni eru klassískar perlur sem flestir þekkja, úr óperunum: Carmen, La Bohéme, Rakarinn frá Sevilla,
Tannhäuser og Tosca. Miðasala í Hofi og hér.
Okkar sýn
ÁLFkonur (ÁhugaLjósmyndaraFélag fyrir konur) opna ljósmyndasýningu laugardaginn 27. ágúst kl. 15. Sýningin, sem staðsett verður
utandyra, stendur til sunnudagsins 4. september. ÁLFkonur er félagskapur kvenna á Eyjafjarðarsvæðinu sem hafa ljósmyndun að áhugamáli.
Það sem einkum einkennir konurnar er einlægur áhugi þeirra á ljósmyndun og löngun til að fræðast og betrumbæta færni
sína og tækni. Þær hafa hist reglulega til að ræða málin auk þess að fara saman í styttri og lengri ljósmyndaferðir.
Þetta er fjórða samsýning ÁLFkvenna.
Björgvin Halldórsson 60 ára afmælistónleikar
Tónleikarnir sem slógu í gegn í Háskólabíói koma norður á Akureyrarvöku. Uppselt er tvenna tónleika Björgvins
Halldórssonar í Hofi laugardagskvöldið 27. ágúst. Áhorfendum er lofað mikilli tónlistarveislu á persónulegum nótum en
Björgvin mætir í Hof ásamt góðum gestum. Rifjaður verður upp einstakur tónlistarferill Björgvins í 40 ár, allt frá
því hann var kosinn poppstjarna ársins árið 1969 til dagsins í dag, með viðkomu hjá HLH, Brimkló, Lónlí Blu Boys, Eurovision
og Hjartagosunum og jöfnum höndum sungin Íslandslög, rokklög, ballöður af dýrari tegundinni og kántrí. Tónleikarnir verða sendir
beint út á Rás 2.
Lifandi tónlist á laugardagskvöld
Að loknum tónleikum, um kl.23.30, verður lifandi tónlist í Hamragili og eru gestir og gangandi hvattir til að líta við og njóta ljúfra
tóna. Eyþór Ingi Jónsson bæjarlistamaður situr við píanóið og fær til sín góða gesti. Veitingastaðurinn 1862
Nordic Bistro verður með opið frameftir kvöldi.
Menningarhúsið Hof býður gestum og gangandi á opið hús sunnudaginn 28. ágúst kl. 12-16. Á meðal dagskrárliða eru:
Útvarpsþátturinn Gestir út um allt sem sló heldur betur í gegn síðastliðinn vetur. Margrét Blöndal og Felix Bergsson, umsjónarmenn þáttarins, bjóða til sín góðum gestum. Hljómsveit Hjörleifs Arnar Jónssonar verður á sínum stað. Áhorfendur eru velkomnir í salinn til að taka þátt í gleðinni kl. 12:45-15:00.
Sirkus Íslands kennir börnum á öllum aldri sirkuskúnstir á milli kl. 14-16.
Lifandi svipmyndir frá fyrsta starfsári Hofs verða sýndar í Hömrum.
Nemendur Tónlistarvinnuskólans leika fyrir gesti og gangandi víðsvegar um húsið.
Gestum verður boðið uppá afmælisköku í boði 1862 Nordic Bistro kl. 15.
Spennandi afmælistilboð í Hrím hönnunarhúsi.
Afmælisbröns hjá 1862 Nordic Bistro kl. 11:00-14:00.
Miðasala Hofs verður opin þar sem hægt er að kynna sér áskriftarkort Hofs og dagskrána framundan.
Gestir og gangandi eru hvattir til þess að líta við í Hofi á sunnudaginn, skoða húsið og starfsemina og taka þátt í skemmtilegri dagskrá!