Árstíðir útgáfutónleikar
Árstíðir var stofnuð 2008 og hefur tekið miklum framförum síðan. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu, samnefnda sveitinni, árið 2009 sem fylgt var eftir hérlendis sem erlendis. Frá því að hún kom út hafa liðsmenn unnið í nýju efni sem kemur nú út á plötunni Svefns og vöku skil. Nýja platan var tekin upp í samstarfi við Ólaf Arnalds og Styrmi Hauksson og er hljóðmyndin öllu stærri þar sem engu var til sparað.
Á þessu ári hafa Árstíðir farið þrjár ferðir erlendis og leikið í fimm löndum við góðar undirtektir. Nú síðast í Rússlandi þar sem hljómsveitin lék í átta borgum en áhugi á sveitinn í Rússlandi hefur aukist jafnt og þétt síðan hún fór í tónleikaferðalag þangað í október í fyrra.
Á þessum tónleikum njóta Árstíðir liðsinnis tveggja strengjaleikara og verða tónleikarnir öllu glæsilegri fyrir vikið.