Bylting í tónlistarlífinu á Akureyri
Bösendorfer flygillinn er nýr og er framlag KEA til Menningarhússins Hofs en flygillinn er með opinn og ljóðrænan tón og hentar vel til einleiks og til flutnings á kammertónlist. Steinway flygillinn eða Ingimarsflygillinn svokallaði er svo hinn flygillinn en safnað var fyrir honum með minningartónleikum um hinn dáða tónlistarmann, Ingimar Eydal sem lést árið 1993. Undanfarin ár hefur flygillinn verið staðsettur í tónlistarhúsi Eyjafjarðarsveitar, Laugarborg, þar sem hann hefur gegnt hlutverki sínu með sóma en nú er komið að því að gestir Hofs munu njóta hans. Flyglarnir eru með ólíka karaktera og valdir með tilliti til salanna í Hofi og notkunarmöguleika í framtíðinni.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Menningarhússins Hofs segir það afar ánægjulegt að geta boðið tvö glæsileg en ólík hljóðfæri til afnota fyrir gesti hússins og að framlag KEA og Tónlistarfélagsins á Akureyri í þessum efnum sé ómetanlegt.
Sjá umfjöllun í sjónvarpsfréttum RÚV 16. ágúst 2010 hér.