Andrea Gylfa og Einar Óli stíga á svið Hamraborgar
Fjórðu og síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni Í HOFI & Heim fara fram annað kvöld þegar landsþekkta söngkonan Andrea Gylfadóttir kemur fram með ungstirninu Einari Óla. Með þeim spilar gítarleikarinn Kristján Edelstein. Efnistök tónleikanna samanstendur af verkum eftir þau sjálf í bland við verk annarra. Tónleikarnir fara fram á sviði Hamraborgar og verður einnig streymt beint á mak.is svo áhorfendur geti haft það huggulegt heima í sófanum.
Söngkonan Andrea Gylfadóttir hefur gefið út fjölda hljómplatna með hinum ýmsu hljómsveitum og listamönnum. Síðustu misserin hefur hún stundað kennslu við Tónlistarskólann á Akureyri. Einar Óli er laga- og textahöfundur frá Húsavík sem kemur fram undir listamannsnafninu iLo. Hann stundar nám við Tónlistarskóla Akureyrar og vinnur nú að sinni fyrstu plötu, Mind Like Maze, sem er væntanleg á árinu.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20. Tónleikaröðin Í HOFI & Heim er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarbæjar.