Glæsilegri Aðventuveislu SN lokið
Einn áheyrandanna sagði “Aðventutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands voru yndislegir! Hljómsveitin frábær, stúlknakórinn ljúfur, Kristján kröftugur, Sigríður Thorlacius yndislegur túlkandi og lagavalið fjölbreytt og magnað”.
Tónleikarnir voru vel sóttir en Hamraborgin var fullsetin báða tónleikana. Jólatöfrar einkenndu stemninguna og áheyrendur voru leiddir á ljúfum nótum inn í aðventuna. Á efnisskránni voru m.a. lögin Jólakötturinn og Jólasveinar ganga um gólf í kröftugri útsetningu Guðmundar Óla Gunnarssonar hljómsveitarstjóra SN, Ave Maria eftir Sigurð Þórðarson, Maríukvæði eftir Atla Heimi Sveinsson og Geso Bambino eftir Pietro Yon.
Bæði Kristján og Sigríður hafa áður stigið á stokk með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi og voru hæstánægð með að endurtaka leikinn. Kristján var þakklátur tækifærinu að koma til Akureyrar og syngja í Hofi með SN í sal sérhönnuðum fyrir klassíska tónlist og lýsti yfir ánægju sinni með hönnun hússins sem honum finnst hafa einstakan hljóm og bjóða upp á mikla nánd við áheyrendur. Sigríður tók í sama streng og sagði að það hefði verið frábær upplifun að syngja með Kristjáni og að það hefði skapast einstök aðventustund á tónleikunum. Sigríður, Kristján og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þakka Akureyringum, nærsveitungum og öðrum sem sóttu Aðventuveisluna fyrir komuna og óska öllum gleðilegrar aðventu og jóla.