Fara í efni

Hof og Hótel Kea vinna saman að markaðssetningu

Lára Sóley og Hrafnhildur undirrita samninginn
Lára Sóley og Hrafnhildur undirrita samninginn

Til að mynda verður boðið upp á pakkatilboð þar sem hægt verður að kaupa miða á ákveðna viðburði í Hofi og mat og gistingu á Hótel Kea .

„Við höfum átt í farsælu samstarfi við Hótel Kea undanfarin misseri og það er ánægjulegt að geta haldið því áfram,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir verkefnastjóri í Hofi. „Það er mikilvægt að menningarstofnanir og fyrirtæki hér í bænum standi saman og finni í sameiningu leiðir til að laða fólk í bæinn. Okkur finnst afar ánægjulegt að geta gefið gestum Hofs kost á að gera enn meira úr heimsókn sinni í húsið – bæði heimamönnum og þeim sem koma lengra að.“

Hof og Hótel Kea bjóða til að mynda upp á sérstök tilboð í tengslum við sýninguna Kenneth Máni sem sett verður upp í Hofi 17. október næstkomandi í samstarfi við Borgarleikhúsið. Sambærileg tilboð verða einnig í boði fyrir þá sem hyggjast kaupa miða á heiðurstónleika Populus Tremula í Hofi 25. október.

Hrafnhildur E. Karlsdóttir, hótelstjóri á Hótel Kea, segir að öflugt menningarlíf sé eitt helsta aðdráttarafl Akureyrar, sérstaklega yfir veturinn. „Við sjáum það á okkar gestum. Þeir koma ekki bara til að njóta náttúru og útivistar heldur ekki síður til að sækja tónleika, leiksýningar og aðra slíka viðburði. Það er okkur því mikilvægt að vera í góðu samstarfi við menningarstofnanir í bænum.“

Til baka