Sumardagurinn fyrsti í Hofi!
Sumardagurinn fyrsti, fimmtudagurinn 24. apríl, verður haldinn hátíðlegur í Hofi!
Við bjóðum sumarið velkomið með opnum faðmi hér í Hofi með hlátrasköllum barna í dillandi dansi, spennandi trommuslætti og seiðandi söng úr teiknimyndum ásamt hressum skapandi ungum drengjum sem standa fyrir tískusýningu. Áhugasöm börn geta svo prófað hárkollur, búninga og skó um leið og þau taka myndir af sér í herlegheitunum.
Fjöldinn allur af lóum munu hefja sig á loft heim til þeirra barna sem hafa mótað þær í listsmiðju Jonnu og Bildu.
Listaverk nemenda í 2. – 10. Bekk Naustaskóla, sem endurspegla hvernig þeir túlka fegurð heimsins í kringum sig,
halda svo fallega utan um dagskrána þennan fyrsta dag sumars.
Hér verður sannkölluð fjölskyldustemning frá kl. 13-15!
Hér fyrir neðan má sjá dagskrána:
Búningasmiðja
Hamragil frá kl. 13-15
Sjóræningi eða ljón? Tannálfur eða trúður?
Komdu og prófaðu búninga úr verkum Leikfélags Akureyrar og taktu mynd af þér.
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarsjóði Akureyrar

Lóan - Listasmiðja Jonnu og Bildu
Svalir frá kl. 13-15
Lóur
Smiðjur tileinkaðar Lóunni Lóur málaðar á léreft saumaðar og fylltar með kembu.
Kennarar: Brynhildur og Jonna
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarsjóði Akureyrar
Kan(l)ínudans
Hamrar kl. 13
Kan(l)ínudans er orkumikið dansleikhús ætlað börnum (4-10 ára) og fjölskylduáhorfendum. Verkið er dansverk um tvær kanínur sem leika í leit að tengingu. Sýningin var unnin í sumar residensíu, 2023, á Dansverkstæðinu og var frumsýnd í apríl 2024, á Unga Festival í Tjarnarbíói. Sýningin hlaut tilnefningu Grímunnar í flokknum “Barnasýning ársins". Í lok smiðjunnar verður boðið upp á frjálsan dans sem kanínurnar leiða.
Aðstandendur og höfundar sýningarinnar eru danslistafólkið Sóley Ólafsdóttir, íslenskur dansari og Leevi Mettinen, finnskur dansari. Plötusnúðurinn DJMAR!A vinnur í kanínu teyminu sem plötusnúður og kemur einnig fram í sýningunni sem kanína. Fríða Björg Pétursdóttir vann í nánu samstarfi í karaktersköpun í ferlinu, við gerð búninga. Marta Ákadóttir er í teyminu sem ytra auga og dramatúrg og Katrín Hersisdóttir er grafískur hönnuður teymisins, hún teiknar teiknimyndir af kanínunum og vinnur í allri grafík sem viðkemur verkefninu og styður þannig sjónrænan heim Kan(l)ínudanins
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarsjóði Akureyrar

Brot af tónleikunum Teiknimyndalögin okkar
Hamragil kl. 13:30
Elskar þú eða elskaðir þú teiknimyndir? Komdu, hlustaðu og syngdu með uppáhalds teiknimyndalögum Jónínu og Þórðar!
Nokkur vel valin lög uppúr tónleikunum þeirra Teiknimyndalögin okkar verða flutt á sumardaginn fyrsta.
Komdu og syngdu með okkur.

Tískusýning CRANZ
Naust kl. 14
Undanfarna mánuði hafa þeir Helgi Hrafn Magnússon og Kjartan Gestur Guðmundsson saumað föt sem flest eru endurunnin úr gömlu efnum og flíkum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur fatamerki þeirra
CRANZ hlotið verðskuldaða athygli fyrir hönnun sína og meðal annars verið fjallað um þá í Landanum og á Akureyri.net
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarsjóði Akureyrar

Leitin að regnboganum
Hamrar kl. 14.30
Leitin að regnboganum er dans og tónlistarsmiðja fyrir börn á aldrinum 3-6 ára. Ósk og Grettir Græni koma alla leið frá Regnbogalandi að skemmta börnunum við nýja barnatónlist. Leitin að regnboganum á að sýna börnum mikilvægi hugrekkis, þakklætis, virðingar og hjálpsemi. Unnið verður með dans, tjáningu, slæður, hristur og litina. Börnin fá því að vera virkir þáttakendur í ævintýraheimi Regnbogalands. Áhersla verður á að efla hreyfifærniþroska, ímyndunaraflið og sköpunakraft.
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarsjóði Akureyrar

Far Fest Afrika - Dillandi afrísk dans- og trommugleði.
Hamragil kl. 14.30
Dillandi afrísk dans- og trommugleði fyrir alla fjölskylduna.
FAR Fest Afríka á Íslandi var stofnuð árið 2009 af þeim hjónunum Cheick Bangoura og Kristínu Álfheiði Árnadóttur frá Akureyri og hefur menningarhátíðin FAR Fest Afríka verið haldið árlega síðan. Þar hefur verið boðið upp á viðburði, námskeið og/eða fræðslu. Í kringum þessa viðburði og hið öfluga, fjölbreytta og skemmtilega samstarf stofnaði Cheick Bangoura félagið ,,Afríka Lole“. Cheick Bangoura hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi, spilað með Stuðmönnum, Big bandi Samma og Amabadama.
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarsjóði Akureyrar