80´s veisla, þungarokk og flautur
Helgin framundan í Hofi er fjölbreytt og skemmtileg þar sem vinsæl tónlist frá áttunda og níunda áratugunum koma við sögu, þungarokk sem og flaututónlist.
Á föstudagskvöldinu er það sjálf Guðrún Árný sem treður upp í Hamraborg á viðburðinum 80´s / 90´s Nostalgía. Þetta verður heilmikil tónlistarveisla þar sem þessi frábæra söngkona tekur aðeins bestu lögin – lögin sem allir elska. Miðarnir hafa runnið út en ennþá er hægt að næla sér í miða á mak.is.
Á laugardagskvöldinu vendum við okkar kvæði í kross og færum okkur í rokkið því Skálmöld mun halda útgáfutónleikana Ýdali í Hofi. Líkt og fyrri verk sveitarinnar er platan samhangandi saga sem rakin verður frá upphafi til enda, textunum varpað upp á tjald ásamt myndum og ekkert til sparað. Ýdalir segir söguna af norræna guðinum Ulli og átökum hans við orminn Níðhögg. Þá spila örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld, stórt hlutverk ásamt fleiri vættum. Eftir hlé flytur sveitin úrval eldri verka. Hinir tryggu aðdáendur sveitarinnar voru ekki lengi að næla sér í miða en enn er þó hægt að kaupa miða á mak.is.
Á sunnudeginum er komið að Tónlistarfélagi Akureyrar með viðburðinn Schumann og flautan sem haldinn verður í Hömrum. Miðasala er í fullum gangi á mak.is en einnig er hægt að kaupa miða í miðasölu Hofs áður en viðburðurinn hefst.