Fara í efni

Aðlaðandi aðventa

Ljósmyndari: Auðunn Níelsson
Ljósmyndari: Auðunn Níelsson

Aðventan er hafin. Upptakturinn af því sem koma skal var þegar Hnotubrjóturinn, einn vinsælasti ballett allra tíma, í uppfærslu Hátíðarballetts Sankti Pétursborgar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, var sýndur fyrir troðfullum sal af prúðbúnum og eftirvæntingafullum áhorfendum.  Á morgun, miðvikudaginn 30. nóvember stendur söngdeild Tónlistarskólans á Akureyri fyrir óperublóti en viðfangsefnið er Mozart. Laugardaginn 3. desember eru tónleikarnir Heima um jólin  en þar fær Friðrik Ómar til sín þau Guðrúnu Gunnarsdóttur, Gissur Pál Gissurarson, Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur að ógleymdum þeim Helenu Eyjólfsdóttur og Ragnari Bjarnasyni en þau munu skemmta gestum ásamt hljómsveit. 

Þriðja helgin í aðventu er stór helgi hjá okkur en þá  stígur ólíkindatólið og grallarinn Stúfur sín fyrstu skref  til frægðar hjá Leikfélagi Akureyrar í Samkomuhúsinu, en Stúfur hefur undanfarna daga mátað sig við sviðið, leiktjöldin og áhorfendasalinn áður en stóra stundin rennur upp.  Þá munu Norðurljósin loga í Hofi, ekki þó þau sem ferðafólk eltist við, heldur einvalalið norðlensks tónlistarfólks ásamt góðum sunnlenskum gestum syngja jólin inn. Það eru þau Valdimar, Magni Ásgeirsson, Erna Hrönn Ólafsdóttir,  Óskar Pétursson, Sigríður Thorlacius og Laddi sem stíga á stokk og láta ljós sitt skína ásamt hljómsveit og kammerkórnum Ísold.  

Föstudagsfreistingar Tónlistarfélags Akureyrar verða á sínum stað í aðventunni nánar tiltekið þann 16. desember. Þar munu Þórhildur Örvarsdóttir og Eyþór Ingi Jónsson töfra fram ljúfar jólafreistingar í formi íslenskra jólaperlna og sálma svo eitthvað sé nefnt. Bubbi Morthens verður með Þorláksmessutónleika sína þann 21. desember en fyrr þann dag  mun húsið fyllast af skælbrosandi og ánægðum nýútskrifuðum stúdentum og iðnnemum frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og ættingjum þeirra í jólaútskrift skólans.  

Af nógu er að taka og afar ánægjuleg aðventa framundan hér í Hofi og í Samkomuhúsinu. 

Til baka