Allskonar skemmtilegt í september!
September heilsar með fjölbreyttum viðburðum í Menningarhúsinu Hofi og Samkomuhúsinu!
Viðburðurinn gímaldin flytur Hetfield píanó proekt ríður á vaðið í Svarta kassanum í Hofi þann 8. september. Um er að ræða tilvistar- og aðferðafræðilega raun um eðli tónlistar. Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningafélags Akureyrar.
Daginn eftir er komið að afmælistónleikunum Við eigum samleið. Þau Sigga Beinteins, Guðrún Gunnars og Jógvan Hansen flytja öll vinsælustu lögin sín frá upphafi og nokkur ný.
Nostalgían tekur völdin 15. september þegar söngkonan Guðrún Árný mætir í Hof með vinsælustu lögin frá 80´s og 90´s. Heilmikil tónlistarveisla sem enginn má missa af. Þá er komið að rokkinu því Skálmöld heldur útgáfutónleikana Ýdali í Hofi 16. september. Selt verður í sæti og tónleikarnir henta öllum aldri. Yngri áhorfendur og viðkvæmari skyldu muna eftir heyrnarhlífurm.
Hljómsveitin Hundur í óskilum mætir aftur í Samkomuhúsið og nú með sýninguna Njála á hundavaði. Leikarar eru að vanda Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson og leikstjóri Ágústa Skúladóttir. Sýningar hefjast í Samkomuhúsinu 22. september.
Hljómsveitin Hvanndalsbræður er þekkt fyrir að fara ótroðnar slóðir í tónleikahaldi með sambland af ýmiskonar uppákomum, tónlist og sprelli og á því verður eflaust engin breyting þegar þeir troða upp í Hofi 30. september. Með hljómsveitinni verða góðir gestir en það eru þeir Gísli Einarsson og Kristján Ingimarsson.
Miðasala á alla viðburðina er í fullum gangi á mak.is