Fara í efni

Ánægja bæjarbúa með Hof og þétt dagskrá á aðventunni

Akureyringar ánægðir með Hof

Rúmlega átta af hverjum tíu íbúum Akureyrar og nágrennis eru jákvæðir gagnvart þeirri starfsemi sem hefur verið í Hofi frá opnun hússins fyrir tveimur árum. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Capacent gerði á haustmánuðum.

Í könnuninni var spurt hvort fólk væri jákvætt eða neikvætt gagnvart starfseminni hingað til. 82,4 prósent svarenda sögðust jákvæðir og eingöngu 2,7 prósent aðspurðra kváðust neikvæðir gagnvart starfsemi Hofs. Lítill sem enginn munur var á svörum þegar litið er til kyns og aldurs svarenda.

Hátt í níu af hverjum tíu, eða 87,2 prósent svarenda, telja starfsemina í Hofi skipta miklu máli fyrir bæjarlífið á Akureyri.

„Þessar niðurstöður eru vissulega mikið ánægjuefni og hvatning til frekari góðra verka fyrir alla sem að starfsemi Hofs koma með einum eða öðrum hætti“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hofs.  Fyrr í haust var tilkynnt að yfir þrjúhundruð þúsund gestir hafi sótt viðburði í húsinu frá opnun hússins og reksturinn var jákvæður. Í því ljósi skilaði Menningarfélagið rekstrarafganginum, einni og hálfri milljón króna til bæjarins með hvatningu um að stofnaður yrði viðburðasjóður fyrir menningarstarfsemi í bænum.

 

Aðventan í Hofi

Á aðventunni verður úrval menningarviðburða í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Dagskráin endurspeglar dagskrá Hofs í heild sinni þar sem fjölbreytileiki, metnaður og skemmtun eru höfð að leiðarljósi.

Baggalútsmenn taka forskot á jólasæluna og halda þrenna tónleika um næstu helgi. Af öðrum viðburðum sem á dagskrá eru fram að jólum má nefna Sigurð Guðmundsson og Memfismafíuna, Mæðrastyrkstónleika Kvennakórs Akureyrar, aðventutónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands þar sem barnakórar Akureyrarkirkju og tenórinn Gissur Páll Gissurarson koma fram, Gospelkór Akureyrar, Norðurjól, KK og Ellen, Frostrósir og Þorláksmessutónleika Bubba Morthens. Loks má nefna jólaþátt Gesta út um allt þar sem aðalgestur þáttarins verður Páll Óskar Hjálmtýsson.


Hugljúfur hálftími í hádeginu

Frá 1. desember og á hverjum degi fram að jólum verður lifandi jóladagatal í Menningarhúsinu Hofi með fjölbreyttri dagskrá í samstarfi við 1862 Nordic bistro sem bjóða gestum upp á munnbita í anda aðventunnar auk þess sem spennandi hádegisverðarseðill er á veitingastaðnum í desember.

Á meðal þeirra sem koma fram eru Hymnodia, Sigmundur Ernir, Óskar P. og Eyþór Ingi, sr. Hildur Eir Bolladóttir, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands,  Margrét Blöndal og Guðrún Gunnarsdóttir.

Nemendur í Myndlistarskólanum á Akureyri munu hanna jóladagatal sem verður staðsett í Hofi og á hverjum degi, frá fyrsta degi desembermánaðar og fram að aðfangadag, verður einn gluggi opnaður. Í kjölfarið fá gestir og gangandi að njóta uppákomu af einhverju tagi. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

 

Nánari upplýsingar um viðburði sem framundan eru má fá í miðasölu Hofs, s. 450 1000 og www.menningarhus.is

Til baka