Andri Snær í Hofi
Andri Snær Magnason og Högni Egilsson munu troða upp í Hofi þriðjudaginn 29. október með óvenjulega sýningu sem er allt í senn alvarlegt uppistand með kómísku ívafi, sögustund, fyrirlestur og myndasýning sem Högni styrkir og lyftir með sínum tónheimi.
Andri Snær hefur undanfarin ár viðað að sér rannsóknum um tímann og vatnið, hvernig allt í heiminum mun taka breytingum á næstu hundrað árum með loftslagsbreytingum. Hann setur málefnið í samhengi, birtir okkur stærðargráðuna, leitar að vonarglætum og veltir upp spurningunni, hvað þýðir það að vera ung manneskja og standa frammi fyrir þessari áskorun. Hann notar dæmi úr fortíðinni til að varpa ljósi á framtíðina, ræðir við Dalai Lama, vísindamenn og ömmu sína. Útkoman er einstök sýning um mikilvægustu mál okkar tíma.
Bók Andra Snæs, Um tímann og vatnið, fékk 5 stjörnur á dögunum en hún hefur þegar selst til tólf landa.
Um tímann og vatnið með Andra Snæ er gestasýning frá Borgarleikhúsinu. Miðasala í fullum gangi hér.