Fara í efni

Ballettinn Þyrnirós í Hofi

Menningarfélag Akureyrar og  Hátíðarballet St. Pétursborgar sýna Þyrnirós á fjölum Hamraborgar við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands dagana 26. og 27. nóvember kl. 19.30. Hér er á ferðinni ballettsýning á heimsmælikvarða þar sem atvinnuballettdansarar töfra áhorfendur með einstökum þokka ballettdansarana, fallegum búningum og ævintýralegri sviðsmynd við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Það eru rúmlega 100 manns sem koma að þessari uppfærslu og því mannmargt á sviðinu, í gryfjunni og baksviðs.

Gaman er að segja frá því að þetta er í annað sinn sem Akureyringar og Norðlendingar allir fá tækifæri til að njóta ævintýratöfra þeirra sem felast í slíkri uppsetningu og það í þeirra heimabyggð.  

Á síðasta ári var það Hnotubrjóturinn sem heillaði áhorfendur í troðfullum sal.  Í ár eru tvær sýningar í Hofi á hinu kunna ævintýri um Þyrnirós sem slær hversdaginn, rétt fyrir aðventu, ævintýraljóma. 

Menningarbrú Hofs og Hörpu, sem reist var 2015, gerir komu rússneska ballettsins til Akureyrar mögulega. Markmið menningarbrúarinnar er  að auka tækifæri listamanna til að sýna list sína í Reykjavík og á Akureyri ásamt því að viðburðum á vegum menningarhúsanna tveggja. Þyrnirós verður einnig sýnd í Hörpu í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

 

 

 

 

Til baka