Björgvin 60 ára afmælistónleikar
Ákveðið hefur verið, í samstarfi við Akureyrarstofu að fara með 60 ára afmælistónleika Björgvins Halldórssonar til Akureyrar
í ágúst. Tónleikarnir verða haldnir á Akureyrarvöku sem er árleg bæjarhátíð á Akureyri í tilefni afmæli
bæjarins.
Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og glæsileg en afmælistónleikar Björgvins verða einn af hápunktum hennar. Eins og kunnugt er
slógu tónleikarnir rækilega í gegn í Reykjavík í apríl síðastliðnum þegar þrennir tónleikar seldust upp
á augabragði í Háskólabíói og færri komust að en vildu.
Afmælistónleikar Björgvins í Hofi þann 27. ágúst nk. verða eftir sem áður mikil tónlistarveisla, en á persónulegum
nótum og ætti enginn lagviss maður að láta sig vanta á herlegheitin. Þar verður rifjaður upp einstakur ferill Björgvins í rúm 40
ár, allt frá því hann var kosinn poppstjarna ársins árið 1969 til dagsins í dag, með viðkomu hjá HLH, Brimkló,
Lónlí Blu Boys, Eurovision og Hjartagosunum og jöfnum höndum sungin Íslandslög, rokklög, ballöður af dýrari tegundinni og
kántrí.
Staðfestir gestir í afmælinu eru: Eyjólfur Kristjánsson, Jóhanna Guðrún og Krummi. Fastlega má búast við því að fleiri gestir bætist í fögnuðinn áður en yfir lýkur.
Hljómsveitin er óbreytt og valinn maður í hverju rúmi:
Gítar: Jón Elfar Hafsteinsson
Gítar og steel: Sigurgeir Sigmundsson
Gítar og raddir: Eyjólfur Kristjánsson
Hljómborð og raddir: Þórir Úlfarsson
Bassi og raddir: Friðrik Sturluson
Slagverk og raddir: Hannes Friðbjörnsson
Trommur: Jóhann Hjörleifsson
Hammond: Þórir Baldursson