Fara í efni

Björgvinshátíð

Þar mun 100 manna kór undir stjórn Roars Kvam flytja kantötuna, Tilkomi þitt ríki og Leikfélag Akureyrar sýnir valda þætti úr leikritinu Skrúðsbóndinn eftir Björgvin undir leikstjórn Maríu Sigurðardóttur. Einnig verða sungin þekkt einsöngslög eftir Björgvin og sýnd kvikmynd af söngferð Kantötukórs Akureyrar 1951 til Norðurlandanna. Þá verða einnig flutt ávörp og stutt æviágrip um tónskáldið.  

Hátíðardagskráin er haldin í tilefni af því að þann 26. apríl 2011 eru 120 ár liðin frá fæðingu Björgvins Guðmundssonar, eins merkasta tónskálds sem Ísland hefur átt. Björgvin var fæddur á Rjúpnafelli í Vopnafirði, bjó í Vesturheimi um árabil, og starfaði síðan á Akureyri um 30 ára skeið við tónsmíðar, söngkennslu, kórstjórn og orgelleik. Árið 1932 stofnaði hann Kantötukór Akureyrar sem hann æfði og stjórnaði fram til 1955.  Kórinn hélt fjölmarga tónleika innanlands og utan.  Af kunnustu tónsmíðum Björgvins eru óratoríurnar Strengleikar, Friður á jörðu og Örlagagátan og kantöturnar Íslands þúsund ár og Tilkomi þitt ríki.  Hvert mannsbarn kann hans milda og fagra lag: Sofðu unga ástin mín og annað lag: Heyrið vella á heiðum hveri er mörgum tamt og afar kært.

Til baka