Fara í efni

Bókahillan í Hofi

Amtsbókasafnið og Menningarhúsið Hof kynna fjölbreytta dagskrá sem tengist ritlist og bókmenntum á einn eða annan hátt í vetur. Þetta samstarfsverkefni er ein af nýjungum í dagskrá Hofs á þriðja starfsári hússins. Markmiðið með samstarfinu er að auka sýnileika ritlista og bókmennta í samfélaginu.  Forsvarsmenn Hofs og Amtsbókasafnsins fagna auknu samstarfi á milli elstu og einnar yngstu menningarstofnanna á Akureyri.

Starfsmenn Amtsbókasafnsins á Akureyri skipta út bókum mánaðarlega í bókahillunni í Hofi en í hverju mánuði er ákveðið þema ráðandi í bókavalinu.

Í janúar er þemað: Sjálfshjálparbækur og áramótaheit. Flestir þrá að vera í fínu formi og við góða heilsu og margir strengja heilsutengd áramótaheit.
Allir fara vel af stað en sumir eiga erfitt með að halda lengi út. Við verðum kannski ekki betri manneskjur af því einu að lesa sjálfshjálparbækur en þær geta veitt okkur innblástur og stuðning ef illa gengur!

Svo er um að gera að kíkja á Amtsbókasafnið, fá lánaðar góðar bækur og jafnvel grípa í bókapressuna.

Til baka