Bókmenntahátíð á Akureyri
Bókmenntahátíð verður í fyrsta sinn á Akureyri þriðjudaginn 5. september í Menningarhúsinu Hofi. Dagskrá hennar er unnin í afar góðu samstarfi Menningarfélags Akureyrar og Amtsbókasafnsins á Akureyri við Bókmenntahátíðina í Reykjavík. Bókmenntahátíðin hefst hér norðan heiða degi áður en Bókmenntahátíðin í Reykjavík er sett. Boðið verður uppá tvo viðburði þennan dag með þátttöku rithöfundanna Anne-Cathrine Riebnitzsky og Esmeralda Santiago.
HÖFUNDAMÓT – höfundar, sögupersónur, lesendur er fyrri viðburðurinn af tveimur þennan dag sem áhugasömum gestum og bókaunnendum er boðið uppá kl. 11.30-13.00. Rithöfundarnir Anne-Cathrine Riebnitzsky (Stormurinn og stillan) og Esmeralda Santiago (Næstum fullorðin) lesa uppúr verkum sínum. Tveir félagar úr akureyrskum bókaklúbbi segja frá sinni upplifun á lestri bókanna og vangaveltum sem urðu til við lesturinn og hafa tækifæri til að spyrja höfundana beint út í verkin. Áheyrendum út í sal gefst einnig kostur á að spyrja spurninga og taka þátt í umræðunum. Viðburðurinn fer fram á ensku og íslensku.
MAÐUR Á MANN er seinni viðburður hátíðarinnar og hefst kl. 17. Þar fara þau Arnar Már Arngrímsson rithöfundur og Esemeralda Santiago á trúnó, en rauði þráðurinn í því eru konur, sjálfsmynd og flutningar. Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður fer á trúnó við Anne- Cathrine Riebnitzsky þar sem aðalumræðuefnið verður konur og stríð ásamt fjölskyldum í skáldskap. Auk þess munu þau Margrét H. Blöndal, Þórgunnur Oddsdóttir, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Megas og Hlynur Hallsson lesa uppúr nýútgefnum verkum sínum úr ritröðinni Pastel. Ávarp flytja þær Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar og Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík.
Viðburðurinn fer fram á ensku en upplestur höfunda Pastels er á íslensku.
Örlítil kynning á erlendu rithöfundunum.
Anne-Cathrine Riebnitzsky er danskur rithöfundur með óvenjulegan bakgrunn. Hún var í danska hernum og fór með honum til Afganistan 2007, fyrst sem óbreyttur hermaður en síðar sem ráðgjafi á vegum utanríkisráðuneytisins. Í Afganistan starfaði Riebnitzsky meðal annars með stríðshrjáðum konum og hefur sú reynsla orðið henni að yrkisefni í verkum hennar þar sem hlutskipti kvenna og barna í stríði hefur verið áberandi stef. Frumraun hennar var ævisögulegt uppgjör við árin í Afganistan og nefndist Stríð kvennana (Kvinderens krig) en hún kom úr 2010. Nýjasta bók Riebnitzsky, Stormarnir og stillan er nýkomin út á íslensku.
Esmeralda Santiago er þekktust fyrir endurminningabækur sínar sem fjalla meðal annars um þá reynslu að tilheyra tveimur löndum, en sjálf fæddist hún á Puertó Rikó og fluttist til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þegar hún var þrettán ára. Tvær endurminningabókanna hafa verið gefnar út í íslenskri þýðingu Herdísar Magneu Hübner hjá bókaforlaginu Sölku, en það eru bækurnar Stúlkan frá Púertó Ríkó og Næstum fullorðin. Í bókunum dregur Santiago upp ljóslifandi myndir úr lífi ungrar konu í New York á sjöunda áratugnum og lýsir togstreitunni sem þrá hennar eftir menntun hefur í för með sér. Nýjasta bók hennar heitir Conquistadora og er söguleg skáldsaga sem gerist á Puertó Rikó en hefur enn ekki verið þýdd á íslensku.
Allir eru hjartanlega velkomnir á hátíðina.