Borgarasviðið
Við erum sögurnar sem við segjum okkur sjálf um okkur sjálf.
Borgarasviðinu er kært það líf sem lifað er allt um kring, allar sögur sem borgara á Akureyri eru með í farteskinu. Gamlar og þær sem skrifaðar eru að morgni.
Borgarasvið er þekkt víða í Evrópu meðal annars á hinum norðurlöndunum. Það er ákveðin leið til þess að skapa frásögn og veita spurningum og rannsóknum borgaranna snertiflöt við sitt samfélag með tækjum og meðulum leikhússins. Tveir sviðslistamenn frá Leikfélagi Akureyrar munu leiða vinnu borgaranna að sýningu sem sýnd verður á sviði Samkomuhússins árið 2016 . Umgjörð Borgarasviðsins er lítil en í sterku samhengi við nærsamfélagið og framvarðasveit sviðslistasamfélagsins. Við hvetjum þig til þess koma með þinn kima, þinn heim, á sviðið. Við viljum heyra þína frásögn og deila tíma, rúmi, ljósi, hljóði og upplifun þegar við vinnum úr sögum okkar á sviðinu.
Borgarasviðið er staður fyrir þá sem hafa eitthvað að segja og þrá að taka áskorun hins listræna ferlis. Það er staður uppgötvunar, rannsókna og könnunarleiðangra. Þar sem við syngjum, dönsum, hlægjum, misskiljum og gleymum líðandi stund.
Aðgengi ,mennska, hlutdeild, fjölbreytileiki, forvitni og gjafmildi eru vörður sem við höfum að leiðarljósi í þeirra víðasta skilningi.
Þegar við stöndum á sviðinu sjáum við leikhúsið með öðrum augum og jafnvel heiminn.