Börn fyrir börn
Tilgangur hátíðarinnar er að efla samstarf milli aðila sem koma að menningu barna á Norðurlandi, njóta menningar með börnum og láta um leið gott af sér leiða. Að þessu sinni rennur allur ágóði hátíðarinnar til Barnadeildar FSA.
Heimir Ingimarsson og Hjalti Jónsson ætla að hita upp fyrir hátíðina í Hömrum, minni sal Hofs, kl. 12-13 og stjórna söng og leikjum fyrir börn á leikskólaaldri. Skotta úr Stundinni okkar kíkir einnig í heimsókn. Allir velkomnir, enginn aðgangseyrir.
Rodrigo Lopes kennari við Tónlistarskólann á Akureyri stýrir trommurhring fyrir gesti og gangandi í Hamragili kl. 13:00-13.45.
Hátíðin sjálf fer svo fram í Hamraborg aðalsal Hofs og hefst hún kl. 14.
Fram koma börn sem leggja stund á ólíkar listgreinar ásamt listamönnum á borð við Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur og Davíð Sigurgeirsson.
Kynnar hátíðarinnar eru umsjónarmaður Stundarinnar okkar, Margrét Sverrissdóttir og leikarinn Oddur Bjarni Þorkelsson.
Að hátíðinni koma fjölmargir aðilar sem vinna að menningarstarfi barna á Eyjafjarðarsvæðinu: Tónlistarskólinn á Akureyri, Tónlistarskóli Dalvíkur, Point dansstúdíó, Tónræktin, Barnakórar Akureyrarkirkju, Kór Hrafnagilsskóla, HBI Vocalist Söngskóli, Tónlistarvinnuskóli Hofs ásamt fjölmörgum grunnskólanemendum. Verkefnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði.
Miðaverð er aðeins 500 kr. og eins og áður sagði rennur allur ágóði hátíðarinnar til Barnadeildar FSA.