Chicago, bandarísk kórtónlist og ABBA tvenna
Það verður heldur betur mikið um að vera um helgina bæði í Samkomuhúsinu og Menningarhúsinu Hofi.
Söngleikurinn Chicago verður sýndur í kvöld, föstudagskvöld og laugardagskvöld í Samkomuhúsinu. Það er nánast uppselt alla helgina og nú eru allar sýningarnar komnar í sölu en sýningum lýkur í apríl.
Í Hofi á laugardaginn flytur Kammerkór Norðurlands bandaríska kórtónlist kl. 16. Flutt verða nokkur af glæsilegustu nýrri kórverkum höfuðtónskálda Bandaríkjanna. Einnig eru á efnisskránni þjóðlög, trúarleg lög og þekkt popplög í nýjum og afar metnaðarfullum útsetningum. Meðal lagahöfunda má nefna Paul Simon, Eric Whitacre, Jake Runestad, Billy Joel, Ola Gjeilo, Réne Clausen og Morten Lauridsen. Stjórnandi Kammerkórs Norðurlands er sem fyrr Guðmundur Óli Gunnarsson en kórfélagar eru flestir tónlistarmenntaðir og/eða atvinnufólk í tónlist og koma víða að af Norðurlandi.
Á laugardaginn mun einvalalið íslenskra söngvara og tónlistarmanna flytur lög hinnar goðsagnakenndu ABBA í Hofi. Tvennir tónleikar verða haldnir en uppselt er á þá fyrri og aðeins örfáir miðar til á þá síðari. Söngkonurnar Hansa, Jóhanna Guðrún, Selma Björnsdóttir, Stefanía Svavarsdóttir og Regína Ósk flytja öll frábæru lögin þessarar einnar vinsælustu hljómsveit allra tíma.
Miðasala á mak.is!