Djass, dans og Hershöfðinginn
Helgin byrjar notalega hjá Menningarfélagi Akureyrar þegar Erla Mist og Fjórir beinir í baki flytja þekkta og minna þekkta djass standarda í bland við frumsamið efni á föstudagskvöldinu. Hljómsveitina skipa Tumi Torfason, Kristófer Hlífar Gíslason, Arnar Jónsson og Tryggvi Þór Skarphéðinsson en verkefnið er styrkt af Verðandi listasjóði. Tónleikarnir fara fram í Hofi og er miðasala í fullum gangi.
Á laugardaginn er komið að ævintýralegri danssýningu Dansstúdíó Alice þar sem flutt verður skemmtileg útgáfa af sögunni af spítustráknum Gosa. Án efa góð skemmtun fyrir gesti og dansara.
Á sunnudaginn eiga kvikmynda- og tónlistarunnendur gott í vændum þegar mynd Buster Keaton, Hershöfðinginn, verður sýnd við lifandi undirleik Svansins. Tónlistin er glæný eftir Davíð Þór Jónsson en viðburðurinn hlaut einnig styrk frá Verðandi.