Einleikstónleikar í Hofi í kvöld
Píanóleikarinn Erna Vala mun halda einleikstónleika í Menningarhúsinu Hofi í kvöld, miðvikudaginn 23. nóvember. Tónleikarnir eru eru tileinkaðir minningum, góðum og slæmum, hlýjum og kærum og eru hluti af tónleikaferð Ernu Völu hringinn í kringum landið.
Hér sérðu dagskrána.
Erna Vala er meðal virkustu hljóðfæraleikara á landinu. Hún hefur einnig komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum auk þess að vinna til fjölda verðlauna fyrir píanóleik. Þar má nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands, Sauli Niinistö, fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA- píanókeppninnar á Íslandi og Unga einleikara. Erna Vala er stofnandi og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Seiglu sem haldin er árlega í byrjun ágúst í Hörpu. Erna Vala stofnaði einnig menningarfélagið Íslenska Schumannfélagið sumarið 2020 og starfar sem formaður þess. Hún hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna.
Erna Vala lauk meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki undir leiðsögn Hömsu Juris vorið 2019. Hún hóf doktorsnám sama ár við USC í Los Angeles sem Fulbright-styrkþegi undir handleiðslu Bernadene Blaha. Áður lauk hún bakkalárgráðu og diplómu í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté.
Tónleikarnir njóta styrkja frá Tónlistarsjóði Rannís, Launasjóði listamanna og eru haldnir af Íslenska Schumannfélaginu.
Tónleikarnir eru án hlés og um klukkustund að lengd.