Fara í efni

Elska - Þingeyskar ástarsögur

Elska er einleikur sem unnin er út frá raunverulegum ástarsögum Þingeyinga.

Jenný Lára Arnórsdóttir, leiklistarkona, vinnur nú að leiksýningu sem er unnin út frá ástarsögum Þingeyinga. Markmiðið er að draga fram í dagsljósið sannar ástarsögur okkar tíma og miðla þeim í leikverki sem flutt verður í desember í sveitarfélögunum í Þingeyjarsýslum.

Tekin voru upp viðtöl við pör og einstaklinga, á aldrinum 24-78 og út frá þeim upptökum er handritið svo unnið. Einnig styðst leikarinn við upptökurnar í persónusköpun sinni. Hugmyndin er að skoða hvort að einkenni sannrar ástar séu enn þau sömu í dag og þau voru áður, eða hvort að skilgreining okkar á ástinni hafi breyst í gegnum tíðina.

Jenný Lára er komin á þann stað að búið er að klippa viðtölin niður og raða saman í handrit. Kynningin mun verða um hvernig þessi aðferð er að nýtast, hvaða vandamál hafa komið upp og lausnir á þeim, hvernig það er að vinna með þessari aðferð, vinnuferlið hingað til og hvað tekur næst við í ferlinu, auk þess sem að gestir fá að sjá örstutt brot úr verkinu.

Jenný Lára útskrifaðist sem leikari og leikstjóri úr The Academy of the Science of Acting and Directing (ASAD) í London.  Eftir heimkomu hefur listakonan fengist við leikstjórn, leiklistarkennslu og leik.  

Verkefnið er unnið í samvinnu við Menningarráð Eyþings og er hluti af "Aftur heim" verkefni ráðsins. 

Til baka