Fara í efni

Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hofi

Nú eru liðin þrjú ár síðan Sinfóníuhljómsveit Íslands lék síðast á Akureyri, haustið 2008. Þá var leikið í Íþróttahöllinni fyrir fullu húsi og við góðan orðstír. Nú þegar að nýtt og glæsilegt tónlistarhús er risið norðan heiða telja forsvarsmenn hljómsveitarinnar og hljóðfæraleikarar svo sannarlega fulla ástæða fyrir hljómsveitina að heimsækja Akureyri á ný.

Á efnisskránni eru tvö meistarverk: glæsilegur klarínettukonsert Webers og kraftmikil sinfónía Beethovens. Auk almennra tónleika í Hofi býður hljómsveitin nemendum við Menntaskólann á Akureyri á sérstaka skólatónleika fyrr um daginn.

„Það er einstaklega ánægjulegt að fá nú tækifæri til að koma fram í Hofi í fyrsta sinn. Það er mikil tilhlökkun hjá hljóðfæraleikurunum enda alltaf gaman að koma fram á nýjum stöðum og þó svo að hljómsveitin hafi oft spilað á Akureyri þá felst tilhlökkun að þessu sinni fyrst og fremst í því að Norðlendingar fái nú tækifæri í heimabyggð til að hlusta á hljómsveitina í sal sem er sérstaklega útbúin fyrir klassíska tónlist.“ segir Sigurður Nordal framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Hofs segir það mikin heiður að fá hljómsveitina í heimsókn. „Það er ánægjulegt að fá að upplifa og taka þátt í þeirri breytingu sem orðið hefur á aðstöðu fyrir tónleikahald á Íslandi undanfarin ár og nú síðast með tilkomu Hofs og Hörpu. Við í Hofi erum virkilega stolt af því að geta boðið Sinfóníuhljómsveit Íslands og öllum þeim listamönnum sem hingað koma upp á fyrirmyndaraðstöðu og um leið erum við virkilega þakklát fyrir að fá að taka þátt í því með listamönnunum að skapa hughrif hjá áhorfendum sem eiga þess nú kost að upplifa tónleika og menningarviðburði sem eru á heimsmælikvarða, bæði með tilliti til listamannanna og umgjörðarinnar.“

Einleikari með hljómsveitinni í þessari heimsókn er Einar Jóhannesson klarinettuleikari en hann hefur um árabil verið meðal fremstu tónlistarmanna landsins. Hann lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1969 og hélt í kjölfarið til náms við Royal College of Music í Lundúnum þar sem hann vann til Frederick Thurston-verðlaunanna. Einar hefur komið fram sem einleikari og hljóðritað fyrir fjölda útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu, Asíu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Hann hefur gegnt stöðu sólóklarínettuleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1980, er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur og leikur með Kammersveit Reykjavíkur.

Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Daníel Bjarnason en hann starfar jöfnum höndum sem hljómsveitarstjóri, tónskáld og útsetjari. Meðal hljómsveita sem hann hefur stjórnað eru London Sinfonietta, Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar auk þess sem hann er hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi kammersveitarinnar Ísafoldar. Meðal annarra samstarfsmanna hans má nefna Sigur Rós, Ólöfu Arnalds, Oliviu Pedroli og Hjaltalín. Daníel fékk tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2010; sem höfundur ársins og fyrir tónverk ársins. Hann hlaut einnig Menningarverðlaun DV 2010 auk þess sem verk hans, Bow to String, var tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2010. 

Stjórnandi
Daníel Bjarnason

Einleikari
Einar Jóhannesson

Carl Maria von Weber: Klarínettukonsert nr. 2 í Es-dúr
Ludwig van Beethoven

Nánari upplýsingar í miðasölu Hofs, s. 450 1000 en einnig er hægt að kaupa miða hér!





Til baka