Norðurorka bakhjarl opinna viðburða
Menningarhúsið Hof og Norðurorka hafa endurnýjað samstarfssamning sinn og verður Norðurorka einn af bakhjörlum Hofs í vetur líkt og undanfarin ár. Með framlagi Norðurorku er Hofi gert kleift að standa fyrir ýmsum opnum viðburðum í vetur, til dæmis skemmtunum fyrir börn.
Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, segir samstarfið við Hof í takt við stefnumótun Norðurorku um ríka samfélagslega ábyrgð. „Samvinnan við Menningarfélagið Hof hefur verið með miklum ágætum og hefur þar verið sérstök áhersla á stuðning við opna menningarviðburði á vegum Hofs. Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur að endurnýja nú bakhjarlastuðning við Hof, ekki síst í ljósi fyrirhugaðrar sameiningar Menningarfélagsins, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Leikfélags Akureyrar,“ segir Helgi.
Norðurorka er til að mynda bakhjarl Barnamorgna. Fyrsti Barnamorgunn vetrarins verður á Akureyrarvöku, sunnudaginn 31. ágúst. Þá skemmta Ævar-vísindamaður og Sprengju-Kata börnum í Hamraborg og aðgangur er ókeypis. Norðurorka styrkir einnig heimsóknir skólabarna í Hof, en í vetur líkt og í fyrra, verður öllum sjöttu bekkingum á Eyjafjarðarsvæðinu boðið í heimsókn í Hof að kynna sér starfsemina.
„Samstarfið við Norðurorku hefur verið afar farsælt og það er óhætt að segja að margir hafi notið góðs af því“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hofs. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta boðið upp á opna viðburði og að börn og fjölskyldur þeirra geti komið í Hof og notið menningarviðburða sér að kostnaðarlausu.“