Fara í efni

LVMA sýnir Ávaxtakörfuna í Hofi.

Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri (LVMA) sýnir næsta leikverk sitt, Ávaxtakörfuna,  á fjölum Hamraborgar í Hofi.

Menningarfélag Akureyrar og Þórduna Nemendafélag Verkmenntaskólans á Akureyri skrifuðu á dögunum undir samning þess efnis. Á þessu starfsári  gafst tilvalið tækifæri til að bjóða LVMA að vera með æfingaaðstöðu og sýningar í Hofi þar sem uppfærslur Leikfélags Akureyrar og gestasýningar þess verða allar í Samkomuhúsinu.

Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélagsins fagnar þessum samningi og segir „við hér hjá Menningarfélaginu höfum átt gott samstarf við LVMA-inga þar sem þau settu upp sýningu sína Litlu Hryllingsbúðina síðastliðinn vetur í Samkomuhúsinu. Í Hofi munu þau læra á nýtt hús, spreyta sig á stærra rými og leika fyrir fleiri áhorfendur í einu. Það verður skemmtileg áskorun fyrir þau sem kallar á hugvitssemi, frjótt ímyndunarafl, lausnamiðaða hugsun og skemmtilegt samstarf og samvinnu við starfsfólk Menningarfélagsins. Við hlökkum mikið til að fá þessi hæfileikaríku ungmenni í hús sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skref með leiklistargyðjunni utan sviðs sem innan“. 

Pétur Guðjónsson viðburðastjóri VMA og leikstjóri Ávaxtakörfunnar segir ánægjulegt að Menningarfélag Akureyrar komið til móts við Leikfélag VMA þannig að unnt væri að koma sýningunni á fjalirnar í Hofi. „Það er bara mjög spennandi verkefni að setja Ávaxtakörfuna upp í Hofi – í besta sal hér norðan heiða – þar sem aðstaðan er eins og best verður á kosið,“ segir Pétur.

Ávaxtakarfan verður frumsýnd sunnudaginn 11. febrúar 2018.

2. sýning verður sama dag, 3. sýning og 4. sýning verða sunnudaginn 18. febrúar. 

 

Til baka