Fara í efni

Afrek að flytja Íslandsklukkuna norður yfir heiðar

Opnun glæsilegs menningarhúss á Akureyri gaf tilefni til að huga að því að leyfa fleirum að njóta Íslandsklukkunnar, auk þess sem sá viðburður kallaðist skemmtilega á við söguna og upphaf starfs í Þjóðleikhúsinu, sem á sínum tíma var fyrsta byggingin á Íslandi, sem var reist sérstaklega til að þjóna almenningi í landinu sem lifandi listastofnun. Sviðsetningin heppnaðist með miklum ágætum og hefur gengið fyrir fullu húsi í Reykjavík síðan, eða í hátt í 50 sýningar og ekkert lát á vinsældum og aðsókn.

„Þó tilefnið væri ærið, var ekki í lítið ráðist fyrir Þjóðleikhúsið að flytja stórsýningu á borð við Íslandsklukkuna norður í land, en á sviðinu standa átján sviðslistamenn, auk alls umbúnaðar og annars sem til þarf. Með samstilltu átaki tókst þetta þó allt saman og ferðin var í alla staði vel heppnuð og fyllilega þess virði. Hof er glæsileg bygging sem á alveg örugglega eftir að verða mikil lyftistöng fyrir menningarlífið norðan heiða og efla um leið allt menningarlíf í landinu, en það er næsta víst að það komi til með að laða að fjölda listamanna, listviðburða og gesta. Það er svo sannarlega ástæða til að óska Akureyringum til hamingju með Hof og þakka fyrir einstaklega góðar viðtökur“ segir Tinna Gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjóri.

Til baka