Fara í efni

Myndlist, dans og jólatónleikar um helgina

Eins og vanalega verður líf og fjör í Menningarhúsinu Hofi um helgina. Á laugardaginn opnar myndlistarkonan Jóna Hlíf Halldórsdóttir einkasýninguna Vetrarlogn. Opnunin er klukkan 14 en sýningin stendur til 9. janúar 2022.

Um kvöldið er komið að hinum stórskemmtilegu jólatónleikum  Norðurljósanna sem nú verða haldnir í sjöunda sinn í Hofi. Tónleikarnir, sem eru þekktir fyrir að vera í senn léttir og hæfilega hátíðlegir, eru geysilega vinsælir og aðeins eru örfáir miðar eftir. Tvennir tónleikar verða í ár, þeir fyrri klukkan 19 og síðari klukkan 22. Söngvarar Norðurljósanna í ár eru þau Ragnhildur Gísladóttir, Mugison, Magni Ásgeirsson, Bríet, Óskar Pétursson og Pálmi Gunnarsson.

Á sunnudeginum er komið að danssýningunni Litla ljóta jólatréð sem er frumsamið verk eftir Karen Jóhannsdóttur. Í sýningunni má sjá dansara á öllum aldri dansa við nokkur þekktustu jólalög allra tíma.

Sem sagt; myndlist, jólatónleikar og dans og því eitthvað fyrir alla í Menningarhúsinu Hofi um helgina. Svo má líka minna á BARR kaffihús þar sem hægt er að fá dásamlega jólasmáréttaplatta allar helgar í jólamánuðnum.

 

 

 

Heimilt er að hafa allt að 500 manns í rými á viðburðum að uppfylltum skilyrðum: Allir gestir, fæddir 2015 og fyrr, verða að framvísa vottorði um neikvætt hraðpróf sem ekki má vera eldra en 48 klst. Nauðsynlegt er að bóka tíma í hraðpróf. Prófin þarf að taka á viðurkenndum stöðum. Heimapróf eru ekki tekin gild. Hraðprófin eru frí. Vottorð um nýlega COVID-19 sýkingu eru einnig tekin gild (vottorðið þarf að vera eldra en 14 daga en yngra en 180 daga).
 
 

Bóka hraðpróf

Einfaldast er að bóka hraðpróf á www.heilsuvera.is en einnig er hægt að gera það hér í gegn:

Bóka hraðpróf - Hvannavöllum

Bóka hraðpróf - HSN Strandgata

 

Hvannavellir 10 (gamla Hjálpræðishershúsið)
Frá og með fimmtudeginum 18. nóvember færast hraðprófin sem fóru fram við Borgir að Hvannavöllum 10 (gamla Hjálpræðishershúsið). Opnunartími er:

Mánudaga til miðvikudaga 8:15 – 15:45
Fimmtudaga 8 - 18
Föstudaga 8 – 20
Laugardaga 10 – 16
Sunnudaga 10 – 14
Ath að laugardaginn 11. desember er opið til 17:15.


 

Strandgata 31
Opnunartími fyrir hraðpróf alla daga frá kl: 11:15 til 12:30 nema föstudaga og laugardaga til kl. 14.00.

Til baka